Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 121
121
DÓMSDAGSKLUKKAN TIFAR
Íslenskir harðlínumenn hafa tekið upp þessa pólitísku stefnu gagnrýn-
islaust. Í þessum anda segir Vilhjálmur Eyþórsson í grein um loftslagsmál
„Að flýta ísöldinni“, sem birtist fyrst í hinu hægri sinnaða tímariti
Þjóðmálum, en síðan á vefsíðu Vilhjálms:
Ég hef áður sagt, að vinstri menn hafa alltaf rangt fyrir sér. Alltaf.
Ekki aðeins það. Taki þeir einhvern málstað upp á sína arma má
bóka með vissu, að sá málstaður er rangur, en allt þetta mál er nýj-
asta dæmið. Allt þetta mál er ofboðslegt og yfirgengilegt. Það er
engin tilviljun að gamlir vinir Stalíns og annarra böðla kommúnista
hafa tekið þessu blaðri fagnandi. Þarna sjá þeir möguleika á að for-
dæma og vandlætast yfir vonsku Vesturlandabúa og grafa undan
þeim og hagsmunum þeirra.77
Í pistli sem Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðis-
flokksins, skrifar á heimasíðu sinni tekur hann undir gagnrýnina á lofts-
lagsfundinn í Kaupmannahöfn sem finna má í Þjóðmála-grein Vilhjálms.
Björn vísar til orðanna sem finna má í Laxdælu: „Því verr þykir mér sem
oss muni duga heimskra manna brögð er þeir koma fleiri saman.“ Björn
segir ráðstefnu COP15 ekki hafa snúist um að „bjarga jörðinni“ því að þá
væri óhugsandi að hún „hefði farið út um þúfur, eins og samt gerðist.
Ráðstefnan staðfesti, að málið snýst um annað en bjarga jörðinni. Þetta
snýst allt um völd og peninga“.78 Björn vísar til pólitískra og efnahagslegra
hagsmuna en ræðir ekki rannsóknarniðurstöðurnar sem öll umræðan hlýt-
ur þó að hvíla á.
77 Kaflinn sem hér er vitnað í er úr eftirmála sem aðeins er að finna á vefsíðu
Vilhjálms. Vilhjálmur Eyþórsson, „Að flýta ísöldinni“, 3. desember 2009: vey.blog.
is/blog/vey/entry/988129/ [sótt 19. febrúar 2011].
78 Björn Bjarnason, „Loftslagsráðstefna út um þúfur“, 20. desember 2009: http://
www.bjorn.is/pistlar/2009/12/20/nr/5229. Frjálshyggjumaðurinn Skafti Harðar-
son vekur einnig athygli á grein Vilhjálms í pistli á heimasíðu sinni, „Nýtt hefti
Þjóðmála“, 7. desember 2009. Skafti gerir ýmsar staðreyndavillur úr greininni að
sinni sannfæringu og segir svo: „Grein Vilhjálms er í senn fræðandi og skemmtileg
og gengur þvert á ‘viðteknar skoðanir’ sem John Kenneth Galbraith varaði okkur
við á sínum tíma“ [sótt 20. febrúar 2011]. Skoðun Björns Bjarnasonar skín einnig í
gegn hjá Agli Helgasyni í pistlinum „Loftslagssirkus“ frá 4. desember 2009, en
hann beinir sjónum að þeim gríðarlegu persónulegu hagsmunum sem í húfi séu
fyrir ýmsa talsmenn umhverfisverndar og segir: „Maður fær á tilfinninguna [svo]
þetta sé dálítið mikil [svo] að margir séu búnir að koma sér ansi vel fyrir í þessum
bransa – hugsanlega í því sem á amerísku kallast gravy train“: http://silfuregils.
eyjan.is/2009/12/04/loftslagssirkus/ [sótt 21. febrúar 2011].