Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Síða 134
134
GuðNI ELíSSON
Líklega er einfaldast að skýra þessa sérkennilegu upptalningu sem
varnarviðbrögð. Egill segir að ,koltvísýringsrétttrúnaðurinn‘ muni hafa
áhrif á daglegt líf okkar allra, hvernig bíl við ökum og hvort við ferðumst
með flugvélum. En þrátt fyrir að „[k]oltvísýringslögreglan“ eigi eftir að
taka völdin segir Egill Íslendinga vera afskaplega ómeðvitaða um
umræðuna. Þeir haldi áfram að byggja bensínstöðvar, bílarnir stækki og
útblásturinn aukist. Enginn virðist í raun og veru taka mark á loftslags-
spám, segir Egill réttilega. Lokaorðin í pistlinum sýna hversu vel Egill
gerir sér grein fyrir afneituninni sem mótar afstöðu langflestra til lofts-
lagsmálanna:
Nú er búið að færa dómsdagsklukkuna fram – vegna gróðurhúsaá-
hrifa. Hún er bara fáeinar mínútur í tólf. Klukkan boðar semsagt að
brátt verði ólíft hér á jörðinni. […] Umhverfissinnar segja að útlitið
sé kolsvart, að lífsmáti okkar sé fullkomlega ósjálfbær, að við hegð-
um okkur eins og gráðugar óseðjandi skepnur. Og jú, mjög líklega
hafa þeir rétt fyrir sér. Maður á samt erfitt með að trúa þessu svona
innst inni, í dýpstu hjartarótum. Kannski er það einhvers konar
sjálfsbjargarviðleitni, hugsanlega sjálfselska og eigingirni – af því
maður vill ekki breyta lífsháttum sínum. Eða kannski er bara búið
að rugla svona mikið í manni? Minnumst þess samt að í sögunni um
strákinn sem kallaði úlfur kom á endanum úlfur og át smaladreng-
inn – eða voru það lömbin sem hann gætti?
Þversagnirnar í pistli Egils er einfaldast að greina í ljósi svissnesku rann-
sóknarinnar. Hann bregst við ósamkvæmninni sem myndast milli skiln-
ingsins á alvarleika loftslagsbreytinga og eigin aðgerðaleysis með afneitun
og yfirfærslu – eins og langflestir gera.119 Pistillinn er tilraun til þess að
119 Það er algjör undantekning að einstaklingar bregðist við framtíðarspám loftslags-
vísindamanna með róttækri endurskoðun á lífsstíl. Svo fáheyrðar eru slíkar til-
raunir að þær þykja gott efni í heimildarmyndir, en hér má nefna No Impact Man
(2009, leikstj. Laura Gabbert og Justin Schein) um Colin Beavan frá New York og
fjölskyldu hans. Þau reyndu að hafa lágmarksáhrif á umhverfið í heilt ár, t.d. með
því að ferðast ekki um í bílum sem knúnir eru áfram af jarðefnaeldsneyti, nota ekki
pappír (ekki einu sinni salernispappír) og kaupa aðeins mat framleiddan í 250
mílna radíus frá heimili sínu. Myndin og bókin sem Beavan skrifaði um reynsluna
hafa gert hann frægan meðal áhugafólks um umhverfismál og það er því írónískt
að frægðin sem meinlætalífið gat af sér leiddi líklega til stórfelldari áhrifa Beavans
á umhverfi sitt en ef hann hefði ekki gert neitt. Harða gagnrýni á tilraun Beavans
má lesa í grein Elizabeth Kolbert, „Green Like Me“ í The New Yorker, 31. ágúst