Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Side 137
137
Í upphafi „Rafflesíublómsins“ stendur Emil, aðalpersóna sögunnar, við
glugga í miðborg Reykjavíkur og horfir á snjókorn falla til jarðar og fylla
„heiminn af kyrrð sinni og þögn“.1 Þetta er friðsæl stund, jól eru á næsta
leiti og haustið er líkt og rammi um viðkunnanlega borgarmyndina. Sér-
kennilegur tónn er þó sleginn því Emil þarf að hugsa sig um til að muna að
„líklega [hafi] snjóað í nokkrar vikur“ (bls. 7). Fjarlægð Emils frá umhverf-
inu og einangrun eru gefin til kynna í óvissunni sem býr í hikinu. En í
gegnum kyrrðina, hikið og snjóinn berst líka ómur frá sígildri nóvellu
James Joyce, „Framliðnum“ (1914), sem lýkur einmitt á ljóðrænni mynd af
aðalpersónunni Gabríel sem fylgist með borgarlandslagi þekjast drifhvítu
lagi af snjó, táknrænni ábreiðu sem leggst jafnt yfir „lífs og liðna eins og
hrap hinstu endaloka“.2 Gabríel ákveður að tími sé kominn til að rjúfa
hina eilífu kyrrstöðu Dyflinnar, rétt eins og kyrrstaða Emils verður brátt
rofin. Jafnvel mætti halda því fram að kirkjugarðurinn sem stendur Gabríel
fyrir hugskotssjónum í „Framliðnum“ („þarsem Michael Furey lá graf-
inn“) kallist á við kirkjugarðinn við Suðurgötu sem er bókstaflega í sjón-
máli Emils í „Rafflesíublóminu“.3 Það er þó ekki síst titill nóvellu Joyce
sem ómar í gegnum nóvellu Steinars Braga, þá fyrstu af þremur í
Himninum yfir Þingvöllum, því dauðinn og hinir framliðnu eru þar í lykil-
hlutverki og í raun allt um lykjandi, rétt eins og snjórinn.
Í íbúð sem Emil erfði eftir afa sinn (einn hinna framliðnu er óbeint
1 Steinar Bragi, Himinninn yfir Þingvöllum, Reykjavík: Mál og menning, 2009,
bls. 7.
2 James Joyce, „Framliðnir“, Í Dyflinni, þýð. Sigurður A. Magnússon, Reykjavík:
Mál og menning, 1982, bls. 227.
3 Sama rit, bls. 227.
björn þór vilhjálmsson
Skrif við núllpunkt
Um steingervinga, sæborgir og endalok
í Himninum yfir Þingvöllum
Ritið1/2011, bls. 137–157