Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Qupperneq 139
139
SKRIF VIÐ NÚLLPUNKT
ur jafngildir vitanlega dauðanum sem aftur jafngildir æðsta stigi ánægj-
unnar.
Slíkur tilvistarlegur núllpunktur er viðfangsefni Steinars Braga í Himn
inum yfir Þingvöllum enda þótt hann sé „kortlagður“ með ólíkum hætti í
sögunum þremur. Í „Rafflesíublóminu“ rennur dauðinn saman við ástina
og núllpunktinum er náð þegar Emil hefur þurrausið þrána eftir lífinu og
ástarhvötin, sjálf „lífshvötin“ eða Eros í kenningakerfi Freuds, er undir-
skipuð dauðanum. Í næstu sögu, „Dögum þagnar“, er það ekki ástin sem er
í forgrunni heldur andstæða hennar, það sem Freud nefndi „eðlislæga
hneigð manna til ,illsku‘“ í Undir oki siðmenningar.4 Þriðja sagan, „Svarti
hluturinn“, birtir veröld þar sem eftirlifendur heimsslita reyna að fóta sig í
tómri veröld þar sem tungumálið sjálft er á undanhaldi. Sjóndeildarhringur
sagnanna þriggja víkkar því sífellt og á milli þeirra má greina röklega fram-
vindu. Fráfall einstaklingsins mótar ramma fyrstu sögunnar, í þeirri næstu
er fjallað um þær hneigðir sem geta ógnað tilvist heillar tegundar og í
þriðju sögunni fagnar dauðahvötin sigri jafnframt því sem hún er tengd
ósjálfbærni þeirrar tæknivæddu og neyslumiðuðu rökvísi sem stýrir sam-
bandi mannsins við náttúruna og umhverfið í nútímanum. Þar má sjá
Steinar Braga takast á við svið umhverfisgagnrýni sem er lítt kannað í
íslenskum skáldskap. Í því sem á eftir fer verður fjallað um margþætta
merkingarvirkni dauðans í Himninum yfir Þingvöllum. Einkum verður litið
til úrvinnslu höfundar á dauðahvötinni, bæði sem frásagnarfræðilegu lög-
máli og þematísku umfjöllunarefni og tákni.
Dauðinn í Reykjavík
Í „Rafflesíublóminu“ er Emil fleytt út úr einangrun sinni þegar drukkin
stúlka bankar upp á um miðja nótt. Hann leyfir henni að sofa úr sér og
næsta dag tekst með þeim vinskapur. Samskipti þeirra fylgja brátt ákveðnu
mynstri. Hún sækir hann heim eftir djammið, hann býður henni gistingu.
Daginn eftir njóta þau samvistanna. Samræður þeirra snúast þó nær alfarið
um dauðann: afþreyingar- og sportsjálfsmorð, alvöru þunglyndissjálfs-
4 Sigmund Freud, Undir oki siðmenningar, þýð. Sigurjón Björnsson, Reykjavík: Hið
Íslenzka bókmenntafélag, 1997, bls. 60. Sjá einnig umræðu Róberts Haraldssonar
um bölsýni í tveimur síðverkum Freuds og hvernig ástarhugtakið reynist þar mik-
ilvægt mótvægi í „Vald ástarinnar“, Tveggja manna tal, Reykjavík: Hið íslenska
bókmenntafélag, 2001, bls. 75–107. Jón Ólafsson gerir umræðu Freuds um „nið-
urrifshvatir mannsins“ að umfjöllunarefni í greininni „Freud um siðmenningu og
samfélag. Lestur í ljósi samtímaheimspeki“, Ritið, 3/2003, bls. 33–47, hér 43–47.