Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 140
140
bJöRN þÓR vILHJáLMSSON
morð, drauga, dauðablæti Emils og manndrápsvélar (moskítóflugan reyn-
ist í fremstu röð). Að sumu leyti færir stúlkan í orð róttækari og úthugsaðri
menningarfræðilega sýn á dauðann en Emil – sem þó er að skrifa lærða
ritgerð um efnið – því hún hefur búið sér til kenningu, en Emil á einmitt
mjög erfitt með kenningalegu hliðina. Að hennar mati hefur dauðinn
breyst í neysluvöru í nútímanum þar sem símalandi nándin við framsetn-
ingar á dauðanum gerir hann óraunverulegan. Borgin er full af fólki „sem
vill ekki deyja í raun en langar að sjá hvernig það er, eins og hægt sé að fá
smakk af dauðanum eða bara treilirinn […] fyrir mér lýsir þetta ástandinu í
miðborg Reykjavíkur, og hversu dauðinn verður nálægur þegar hann er
gerður svona óraunverulegur, eins og er í nútímanum“ (bls. 26–27).
Dauðinn verður hér bæði tákn um „2007“-ruglið (hið endanlega neyslu-
kikk) og firrtan nútíma (fjarvera reynslu verður hin endanlega reynsla).
Togstreitan sem vinkona Emils greinir í dauðanum í nútímanum teng-
ist vandasömu sambandi nándar og reynslu í fjölmiðlaðri og stofnana-
væddri veröld. Það að dauðinn sé „óraunverulegur“ þrátt fyrir nálægð
birtingarmynda hans skírskotar til þess að dauðinn er hlutgerður í afþrey-
ingarafurðum samtímans samhliða því að reynslan af honum verður í
auknum mæli ópersónuleg; dauðinn er hulinn sjónum innan veggja stofn-
ana og helgisiðir hafa fjarlægjandi áhrif.5 „Nálægð“ við dauðann sem
byggist á neyslu fremur en tilfinningalegri úrvinnslu er fölsk eins og stúlk-
an bendir á. Í þekktu verki um tregaljóðið í nútímanum gerir Jahan
Ramazani þessar umbreytingar á félagslegri merkingu dauðans að umfjöll-
unarefni:
Hinir dauðu hafa verið settir í röklegt samhengi, þeir hafa verið
sviptir persónuleika sínum og hlutgerðir, ekki aðeins í þrívíðu rými
útfararstofunnar, kirkjugarðsins og spítalans, með stríðsminnis-
merkinu og dufthýsinu [e. columbarium], heldur einnig í tvívíðu
rými dagblaða, sjónvarps og kvikmynda.6
5 Sjá umfjöllun Guðna Elíssonar um þetta efni í greininni „Í kirkjugarði nefnum við
ekki nöfn. Tími og tregi í ljóðum Steinunnar Sigurðardóttur“, Ritið, 3/2003, bls.
97–99.
6 Jahan Ramazani, Poetry of Mourning. The Modern Elegy from Hardy to Homer,
Chicago og London: The University of Chicago Press, 1994, bls. 18. Tilvitnun
fengin úr Guðni Elísson, „Í kirkjugarði nefnum við ekki nöfn“, bls. 98 og þýðingin
er hans.