Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Side 144
144
„[hann] sleikti framfarir þjóðarinnar […] kaupgetuna […] bankastjóra
Glitnis, viðhorf hans, frumkvöðlasiðferðið“ (bls. 87). Þannig gerir höfund-
ur í vissum skilningi upp dauðatak nýfrjálshyggjunnar og hinn haftalausa
kapítalisma sem réð ríkjum á Íslandi fyrir hrun.
Líf Emils fer að snúast um samvistirnar við líkið og fjarlægðin frá
umheiminum verður nú algjör. Löngun Emils til að sameinast dauðanum,
innlima hann í sjálfið og bera hann með sér, svo vitnað sé í Rilke, leiðir
ekki til frelsunar í anda de Sade, lykilhöfundar nályndisins, heldur ástands
sem vísar á beinan hátt til núllpunktsins sem Freud lýsir sem takmarki
dauðahvatarinnar, frelsi undan áreiti og skynhrifum.14 Emil „saknaði
einskis, sú orðræða var ekki til sem hann hafði ekki tæmt sig í, engin löng-
un eða metnaður sem hann hafði ekki framreiknað að endanlegri niður-
stöðu sinni: ófullnægju. Hann hætti eltingarleiknum, sá gatið í miðju alls og
lét sig hverfa um það […] lifði upp frá því ekki nema til að fullnægja þessari
einu grundvallarþrá sem um leið var drifkraftur tímanna: þráin eftir dauð-
anum“ (bls. 85–86). Ánægjan sem býr í núllpunktinum er hlutgerð í líkinu
og hliðstæða skapast milli þess og endaloka frásagnarinnar, sem eru í nánd.
Við komu stúlkunnar í upphafi líður Emil eins og hann hafi vaknað úr dái
og nú er sem hann sé að snúa aftur til viðlíka ástands, en dauðahvötin
stefnir einmitt að endurhvarfi til tómsins fyrir fæðingu og er þannig í
grunninn endurtekning.15
Kenning Freuds um að „merking“ lífsins eða tilgangur þess felist í
endalokunum reyndist bókmenntafræðingnum Peter Brooks innblástur í
bókarkaflanum „Meistaraflétta Freuds – líkan fyrir frásagnir“. Þar kannar
Brooks frásagnarlega djúpgerð skáldverka og tengir við dauðahvötina.
Enda þótt eðlilegt sé að líta á upphaf sögu sem aflvaka frásagnarinnar
bendir Brooks á að upphafið sé í raun undirselt endalokunum – stakar
frásagnareiningar eru merkingarlausar þar til „formgerðarkraft[ur] end-
ans“ gerir heildrænan skilning á sögunni mögulegan.16 Freud bendir á að
„markmið alls lífs sé dauði“ og á sambærilegan hátt heldur Brooks því fram
14 Umfjöllun Masters og Lea um de Sade er fróðleg í þessu samhengi. Sjá Perverse
Crimes in History, bls. 133–136.
15 Sigmund Freud, „Handan vellíðunarlögmálsins“, Ritgerðir, þýð. Sigurjón
Björnsson, Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2002, bls. 98–104.
16 Peter Brooks, „Meistaraflétta Freuds – líkan fyrir frásagnir“, þýð. Brynja Magn-
úsdóttir, Ritið 2/2003, bls. 172. Hér er þýddur fjórði kafli bókarinnar Reading for
the Plot: Design and Intention in Narrative sem fyrst var gefin út árið 1984.
bJöRN þÓR vILHJáLMSSON