Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 146
146
sínu umgjörð með nályndinu (neikvæð og sorgleg sem hún er) þegar í ljós
kemur að vinkona hans er á lífi og Emil hefur farið líkamavillt. Viðlíka
„óviðeigandi“ birtingarmyndir hvatalífsins og dauðans einkenna fléttur
sagnanna tveggja sem fylgja í kjölfarið.
Dauðinn í Ölpunum
Næsta saga bókarinnar, „Dagar þagnar“, segir frá Önnu og Davíð, kær-
ustupari sem ákveðið hefur að róttækra breytinga sé þörf til að bjarga sam-
bandinu. Anna fær vinnu á skíðahóteli í frönsku Ölpunum að sumarlagi
meðan það er að mestu autt en Davíð ætlar að nota tímann til að skrifa
bókina sem hann hefur gengið með í maganum. Sambandsbrestirnir gera
þó vart við sig á ný en átökin eiga sér einkum stað á tveimur sviðum.
Annars vegar hefur Anna fengið sig fullsadda af heimspekilegum þönkum
Davíðs sem í raun eru skálkaskjól fyrir aðgerðarleysi. Í stað þess að hugsa
um raunveruleikann – sjálfan sig, sambandið við Önnu, framtíðina – þá
teflir Davíð fram íðorðaskotnum málflækjum um fánýta hluti. Hitt sviðið
snýst um boðskipti, lestur og mislestur, tjáningu og tælingarmátt tungu-
málsins – þetta er túlkunarfræðileg hlið sögunnar og að mörgu leyti miðja
hennar. Sagan hverfist öll um að lesa og túlka aðstæður, fólk og texta og
nær undantekningarlaust skrikar Davíð fótur á þessu sviði meðan Anna
reynist traustur lesandi.
Miðlægni lesturs og túlkunar í frásögninni er gefin til kynna strax í
upphafi þar sem sagan hefst á upplestri Davíðs úr og útleggingu á ónefndri
skáldsögu. Kaflinn sem Davíð les hefst með kunnuglegum hætti: „Hlustaðu!
Börn næturinnar hefja söng sinn!“ (bls. 93). Hugsanlega má segja að eftir
grafrusk „Rafflesíublómsins“ og nályndið sem þar ræður ríkjum sé við hæfi
að skírskotað sé til heimsins þekktasta grafarbúa, sjálfs Drakúlu, eins og
hér er gert. Enda þótt textinn sem Davíð les sé ekki tekinn beint úr klass-
ísku hryllingsverki Brams Stoker fer skyldleikinn ekki á milli mála. Jafnvel
er hætt við að myndir af tígulega fölum og hávöxnum Bela Lugosi í kvik-
mynd Tods Browning frá 1931 birtist fyrir hugskotssjónum lesenda en í
frægu atriði í myndinni fer Lugosi einmitt með áðurnefnda línu um börn
næturinnar og söng þeirra.20
20 Þýðing Valdimars Ásmundssonar á skáldverki Brams Stoker, Makt myrkranna
(1901), felur ekki aðeins í sér styttingar heldur einnig róttæka endursköpun á verk-
inu. Upplagt er því að lesa skáldaða Drakúlu-kaflann í „Dögum þagnar“ sem inn-
legg í sögu íslenskra umritana skáldsögunnar. Getgátur hafa reyndar verið uppi
um það að styttingin sem íslenska útgáfan byggir á hafi verið unnin af Stoker sjálf-
bJöRN þÓR vILHJáLMSSON