Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Qupperneq 147
147
SKRIF VIÐ NÚLLPUNKT
Viðbrögð Davíðs við textanum sem hann les úr eru athyglisverð fyrir
margra hluta sakir. Að hans mati er skáldverkið líking fyrir „uppreisn“
hvatalífsins. Það sýnir að einstaklingurinn er aðeins vesæll „hýsill“ hvata
sem að lokum brjóta sér leið út úr „prísund“ dulvitundarinnar. Hvötunum
verður ekki haldið í skefjum, draumar og upphafning duga ekki til, þær
móta hegðun einstaklingsins á beinan og milliliðalausan hátt. Þetta er
martraðarskrefið sem Freud hikaði við að taka, enda dró kortlagning hans
á sálarlífinu fram ritskoðunina sem dulvitundin neyðist til að undirgang-
ast.21 Það hvernig hemlakerfi vitundarinnar getur brugðist er einmitt
grunnstef „Rafflesíublómsins“ og „Daga þagnar“.
Það að túlkun Davíðs styðst við orðfæri sálgreiningarinnar gerir návist
Freuds enn skýrari en ella og jafnvel mætti halda því fram að bók Steinars
Braga, líkt og nýleg kvikmynd Lars von Trier, Andkristur (2009), sé þegar
á heildina er litið eins konar óður til Vínarbúans gamla. Þannig fjallar
bókin sem Davíð les upp úr ekki aðeins um hamskipti (vampíran getur
brugðið sér í margra kvikinda líki) heldur einnig um eins konar hamsleysi
eða ris hins forneskjulega og bælda í manninum. Bókmenntatextinn sem
lesið er úr í upphafi er í þessum skilningi lykill að nóvellunni í heild,
smækkuð útgáfa meginviðfangsefnisins, eins konar miseenabyme eða frá-
sagnarspegill þeirrar atburðarásar sem í hönd fer.22
Það er hér sem Davíð kemst næst því að vera ábyrgur lesandi enda flýt-
ur hann áfram í krafti sjálfra textatengslanna; söguhöfundur réttir honum
hjálparhönd í glímunni við skáldsöguna, hugsanlega svo að þematískar
áherslur komist til skila. Þannig má jafnvel segja að ófreskja sem leggst á
saklaus fórnarlömb sé kvödd fram með upplestrinum, enda er athyglisvert
að í kjölfar textatúlkunarinnar spyr Anna hvort Davíð hafi verið að hitta
steingervingafræðinginn aldraða Gottfried Boppi. Óhætt er að segja að
blinda Davíðs á umhverfi sitt, mislestur hans á aðstæðum, birtist hvergi
skýrar en í samskiptunum við Boppi. Þeir félagar sitja að sumbli löngum
stundum en Önnu hugnast vísindamaðurinn illa og eru gildar ástæður
um, en engin handrit hafa varðveist sem færa rök fyrir þeirri kenningu. Um þetta
má lesa í Leslie S. Klinger, „The Context of Dracula“, The New Annotated Dracula
eftir Bram Stoker, ritstj. Leslie S. Klinger, London: W.W. Norton & Company,
2008, bls. xlix.
21 Þetta er lykilatriði í kenningum Freuds frá Draumaráðningabókinni (1900) til hins
síðasta.
22 Hugtakið frásagnarspegill er fengið frá Jóni Karli Helgasyni. Sjá „Deiligaldur
Elíasar. Tilraun um frásagnarspegla og sjálfgetnar skáldsögur“, Ritið, 3/2006, bls.
107–111.