Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 149
149
SKRIF VIÐ NÚLLPUNKT
rís ekki aðeins gegn lögmálum náttúrunnar heldur er einnig fullkomin
hliðstæða dulvitundarinnar: hún er hulin sjónum „vísindamanna“ og graf-
in í djúpum jarðsögunnar. Í hömluleysi sínu er skrímsli Boppis ennfremur
holdgervingur (eða steingervingur) dauðahvatarinnar, frumafls dulvitund-
arinnar, árásargirnin beinist í allar áttir og þar á meðal að sjálfinu. Hinn
fullkomni núllpunktur er vitanlega útdauði tegundar.
Ljóst er að frásögnum Boppis verður að taka með miklum fyrirvara, í
raun getur það talist nokkuð víst að „hreiðrið“ – en svo nefnir Boppi
greftrarstaðinn – sé uppspuni. Það sem máli skiptir er ekki sannleiksgildi
frásagna hans heldur inntak hugmyndanna sjálfra og orðræðuvefurinn sem
Boppi spinnur og Davíð er berskjaldaður fyrir. Með sögum af fornleifa-
uppgreftrinum og vangaveltum af ýmsu tagi nær Boppi sérkennilegum
tökum á Davíð, og verður honum reyndar margoft hugsað til sérkennilegs
tælingarmáttar frásagnargáfu Boppis (bls. 109, 110, 117, 126, 138). Áhrifa-
máttur Boppis grundvallast þó á brestunum sem fyrir eru í sambandi
Davíðs og Önnu – hann sýgur máttinn úr sambandi þeirra og er þannig að
einhverju leyti sníkjudýr, nokkuð sem tengir hann ekki síður við verk
sænska leikskáldsins August Strindberg en Stokers. Þannig mætti benda á
tengsl sögunnar við leikrit Strindbergs Lánadrottna (1889) sem einnig
vindur fram á fjallahóteli og fjallar um einstakling sem eyðileggur við-
kvæmt ástarsamband þar sem karlinn er í stöðugri sjálfsmyndarkreppu líkt
og Davíð er hér vegna skáldadrauma sinna (vampírismi er þar leiðarstef og
lykilmyndhverfing, líkt og hér).
Snemma í sögunni útskýrir Boppi að drifkraft heimssögunnar sé að
finna í því hvernig hvatirnar teygi „klær sínar“ út úr „skriðdýrsheilanum“
og inn í „fínleg[an] útsaum siðmenningarinnar“ (bls. 113). Hann heldur
áfram:
Illskan […] er einn af grundvallarþáttum alls lífs á jörðinni, og þá
kanntu að spyrja þig hvernig slík lífsstríðandi hvöt hafi fengið að
þróast og dafna án þess að ganga af hýslum sínum dauðum – eða
sjálfri sér, og víkja með tímanum fyrir því sem hefur ætlan og er þar-
með og að öllu samanlögðu hagnýtara. – Það er vegna þess að illskan
[…] gegnir því geðræna hlutverki að vera hin nauðsynlega andstæða
hvatarinnar til lífs: hvatar sem felur í sér að komast af […] Þannig
hafa þessar tvær grundvallarhvatir – gott og illt, til einföldunar –
þróast samhliða, og þannig hefur illskan verið sjálfur vaxtarbroddur
lífsins. (bls. 115–16)