Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 150
150
Lýsingin á togstreitu hvatalífsins skírskotar til síðverka Freuds þar sem
„siðmenningunni er lýst sem ferli í þágu Erosar, lífinu sem vígvelli þar sem
ástarguðinn Eros og eyðileggingaröfl dauðans heyja sitt eilífa stríð,“ eins
og Róbert H. Haraldsson kemst að orði.24 Rannsóknarverkefni Boppis
mótast af þessari lífssýn og uppgröftur í fjallshlíðinni kemur þar ekki við
sögu heldur stefnir hann að niðurrifi Davíðs og Önnu. Þau eru „góða fólk-
ið“ (bls. 114) sem Boppi ræðir um af takmarkalausri fyrirlitningu – þau
standa fyrir ástina – en sjálfur er hann hliðstæða ránfuglsins. Í þessum
skilningi er hótelið „hreiðrið“ og afskipti hans af parinu má lesa sem til-
raun um hvatalífið – hvort er sterkara, spyr Boppi, dauðahvötin eða lífs-
hvötin? Sjálfur er hann fullviss um svarið. Boppi er tilvistarspekingur sem
uppgötvað hefur frelsið sem býr í tóminu og núllpunktinum: „Ég hef séð
heilu borgirnar brenna til grunna með öllu sem í þeim lifði – af engri
ástæðu annarri en þeirri að þannig var það bara. Ég hef séð skeytingarleysið
í bliki stjarnanna […] Og ég hef séð framtíð mannkyns sem er þjáning,
langdregin, slítandi þjáning […] og svo dauði, endanlegur og marklaus
dauði“ (bls. 180). Sjálfsvíg Önnu undir lok sögunnar og geðveikin sem
gripið hefur Davíð gefa til kynna að öflin sem Boppi stendur fyrir kraumi
ávallt undir niðri og þegar þau rísa upp í sínum forneskjulega krafti megi
kærleikurinn sín lítils. Tilraun Boppis um hvatalífið sýnir að dauðahvötin
er allsráðandi.
Dauðinn í eyðimörkinni
Sögusviðið í þriðju sögunni, „Svarta hlutnum“ er yfirgefinn olíuborpallur
í eyðimörk. Pallurinn er þó ekki alveg mannlaus. Þar hafast við tvær mann-
eskjur, drengur og stúlka (líkt og í Turninum og Sólskinsfólkinu) sem heita
Benni og Ella en hvorugt kann nokkra skýringu á veru sinni þar. Ekkert
blasir við utan pallsins annað en eyðimörkin endalausa og þær skírskotanir
til umhverfisharmleiks sem sjávarborpallur í miðri sandauðn kallar fram. Á
nokkrum stöðum er vísað til þess að hafið hafi skyndilega gufað upp og
tengist það skapadægrunum sem parið lifir af. Þá er athyglisvert að Benna,
vitundarmiðju sögunnar, skortir oft og tíðum orð til að lýsa því sem fyrir
augu ber, jafnvel þótt um hversdagslega hluti sé að ræða. Hugsanlega skýr-
ist orðafæðin af aldri drengsins og takmörkuðum reynsluheimi en þó er
24 Róbert H. Haraldsson, „Vald ástarinnar“, bls. 98.
bJöRN þÓR vILHJáLMSSON