Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Side 156
156
bJöRN þÓR vILHJáLMSSON
Lýsingin er grótesk og viðbjóðsleg en útlínur tiltekins skírskotunarkerfis
gera engu að síður vart við sig. Maðkamennirnir sem grafa undan eigin
tilvist í „Rafflesíublóminu“ kallast á við fuglategundina útdauðu í „Dögum
þagnar“ og rani olíuborpallsins í „Svarta hlutnum“ á sér sína grótesku
spegilmynd í rana fílsins sem nærist á eigin úrgangi. Hið hnattræna efna-
hagskerfi sem við öll þekkjum grundvallast á svartri leðju úr iðrum jarðar,
og líkt og fíllinn grefur eigin gröf með óröklegri neysluhringrás má spyrja
hvort maðurinn geri ekki slíkt hið sama.30 Þannig má jafnvel segja að hug-
myndin um sjálfsútrýmingu vitfirrtrar fuglategundar í „Dögum þagnar“
skírskoti til sjálfseyðandi hvata mannsins sem hér eru settar í samhengi við
neitunina að huga að endimörkum vistkerfisins. Slíka neitun má vitanlega
lesa sem „árás“ á komandi kynslóðir. Útsjávarolíu borpallur í eyðimörkinni
er kraftmikið tákn fyrir tilvistarlegt þrot og það hamsleysi sem einkennir
samband mannsins við náttúruna í nútímanum.
Hér er við hæfi að rifja upp að eini rithöfundurinn sem Emil í
„Rafflesíublóminu“ les eftir að hann hefur einangrað sig með líkinu er
Thomas Mann. Þetta þarf ekki að koma á óvart enda má segja að tengslin
við texta á borð við Dauðann í Feneyjum (1912) séu áþreifanleg. Það and-
rúmsloft hnignunar og dauða sem litar söguna af Aschenbach á sér hlið-
stæður í sögunum þremur í Himninum yfir Þingvöllum. Þá kallast sú til-
finning Aschenbachs að „veröldin [sé] að leysast upp í annarlega
sjónhverfingu“, að mörgu leyti á við þá draumkenndu firringu sem ein-
kennir sögur Steinars Braga.31 Skáldverk Manns er athyglisvert dæmi um
það frásagnarlega rökvæðingarferli sem Peter Brooks gerir að umfjöllunar-
efni og tengir m.a. banalegunni. Þráin eftir Tadzio rennur saman við
dauðahvötina þegar Aschenbach ákveður að flýja ekki pláguna í Feneyjum
heldur snýr aftur til hótelsins, drengsins og dauðans. Sjálfstortíming aðal-
sögupersónunnar í skáldverki Manns felur hins vegar ekki í sér ferli sem
göfgar tilvistina með því að ljá henni heildstæða merkingu, líkt og bana-
legan gerir í umræðu Brooks, heldur er grunnur lagður að endalokunum í
blindri þráhyggju. Dauðahvötin birtist á sambærilegan hátt í Himninum
yfir Þingvöllum en þar umbreytist hún í eins konar læmingjasótt. Flotið er
að feigðarósi í krafti flónsku, blindu, vanhæfni og mislesturs á aðstæðum
30 Sjá grein Guðna Elíssonar „Þegar vissan ein er eftir“, Tímarit Máls og menningar,
4/2010. Þar færir Guðni rök fyrir því að hagvaxtarkenningar nútímans mótist af
rökvísi krabbameinsfrumunnar.
31 Thomas Mann, Dauðinn í Feneyjum, þýð. Þorbjörg Bjarnar Friðriksdóttir, Reykja-
vík: Hávallaútgáfan, 2005, bls. 64.