Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 160
160
SIGRúN MARGRéT GuðMuNDSDÓTTIR
Hér er ætlunin að ræða sitthvað sem rithöfundurinn Guðrún Eva,
dúkkugerðarmaðurinn Sveinn og afurðir þeirra eiga sameiginlegt. Bækur
og kynlífsdúkkur eru fjöldaframleidd listaverk; fjallað verður um hvorart-
veggju út frá hugmyndum um fjöldalist (e. mass art). Einnig verður litið til
stöðu þeirra í raunveruleikanum með hliðsjón af hugmyndum Jeans
Baudrillard. Loks verður rætt um neytendur bóka og dúkkna.
Skaparinn Sveinn
Sveinn er önnur aðalpersóna sögunnar. Hann er kynlífsdúkkusmiður,
dúkkurnar smíðar hann heima hjá sér. Þeir sem helst versla við hann eru
einmana karlmenn sem þó koma lítið við sögu að undanskildum Kjartani,
sem líta má á sem samnefnara fyrir kúnnahóp kynlífsdúkkuframleiðenda.
Sveinn býr til hverja einustu dúkku sjálfur með berum höndum; gervikonu
í raunstærð. Hann notar sérlega nýtískuleg hráefni í smíðina; hrærir saman
silíkondufti, storknunarefni og svolitlum lit; blöndunni hellir hann svo yfir
beinagrind „úr stáli og trefjagleri“ sem hann hefur lagt inn í skinnhjúp;
límir saman fram- og afturhlið og penslar loks yfir allt saman.1
Sveinn er menntaður myndlistarmaður og fyrsta dúkkan sem hann
smíðar er útskriftarverkefni frá erlendum listaháskóla. Eftirspurnin verður
slík að hann fer alfarið að sinna dúkkusmíði:2
Hann leit ekki á sig sem listamann þótt aðrir vildu stundum hengja
á hann þá vafasömu nafnbót. Hann var handverksmaður, færastur á
sínu sviði en leyfði sér ekki að miklast af því. […] Hlutverk hans var
að vanda til verka eins og honum var framast unnt, móta blekk-
inguna um manngerða vitund – rammaða inn í ljósa, blásvarta eða
koparrauða lokka, skínandi úr bláum eða mógrænum augum, vok-
andi rétt fyrir innan hálfluktar, ljósrauðar varir – og sleppa fallegu
1 Guðrún Eva Mínervudóttir, Skaparinn, Reykjavík: JPV, 2008, bls. 78–79. Hér eftir
verður vísað til þessarar útgáfu með blaðsíðutali innan sviga í meginmáli.
2 Í þessu samhengi er vert að vísa til orða Walters Benjamin, en lýsing hans á neyslu
fjöldaframleiddra listaverka kann að taka svolítið óvænta stefnu í hugum lesenda sé
hún heimfærð á kynlífsdúkkur Sveins: „Fjöldinn er sá frjósami jarðvegur sem fæðir
nú af sér nýja afstöðu til listaverka. […] Vegna aukins fjölda þátttakenda hefur eðli
þátttökunnar breyst.“ Í stað þess að einbeita sér að listaverki eins og fyrr „gleypir
fjöldinn listaverkin sér til afþreyingar“. Walter Benjamin, „Listaverkið á tímum
fjöldaframleiðslu sinnar“, Fagurfræði og miðlun, ritstj. Ástráður Eysteinsson, þýð.
Árni Óskarsson og Örnólfur Thorsson, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2008, bls.
574–575.