Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 162
162
SIGRúN MARGRéT GuðMuNDSDÓTTIR
Franski samfélagsrýnirinn og menningarfræðingurinn Jean Baudrillard
heldur því fram að í samtímanum hafi raunveruleikinn vikið fyrir eftirlík-
ingunni. Hann telur að nú til dags lifi menn á hinu fjórða þróunarstigi
myndarinnar þar sem eftirlíkingin „hefur alls engin veruleikatengsl: hún er
sitt eigið líkneski og ekkert annað.“5 Þar fari fram „örvæntingarfull fram-
leiðsla á raunveruleika“ sem eigi sér aðeins hliðstæðu í „hinni örvænting-
arfullu framleiðslu á efnislegum hlutum“6 sem leiðir til þess að ofurraun-
veruleikinn tekur yfir. Umfjöllunina um ofurraunveruleikann byggir Bau -
drillard á ímyndunarheimi Disneylands, „þar sem öll hin bandarísku gildi
eru […] sýnd í líkönum og á teiknimyndaformi.“7 Í augum persóna Skap
arans eru eftirlíkingarnar orðnar raunveruleiki sem birtist í því að hvað
eftir annað eru dregnar upp hliðstæður með kynlífsdúkkum og lifendum.
Sveinn ber dúkkurnar sínar stöðugt saman við lifandi konur; hann tengir
ásýnd og líkamsbyggingu kvenna sem hann mætir dúkkunum sínum, útliti
þeirra og gerð. Þannig minnir kona með slöngulokka hann á dúkkuna
„Honey-Golden Susie“ (bls. 11) og vaxtarlagi lifenda er skipað í flokka
eftir gerðum dúkkubúka: „Líkami hennar minnti á númer sjö“ (bls. 140).
Ítalski táknfræðingurinn Umberto Eco ræðir Disneyland á svipuðum
nótum og Baudrillard. Hann telur að það sýni að tæknin geri okkur kleift
að upplifa ,meiri raunveruleika‘ en náttúran getur boðið upp á. Mönnum
sé þó alveg ljóst að Disneyheimurinn sé alger tilbúningur, en hann verði
að líta út fyrir að vera fullkomlega ,raunverulegur‘ til þess að þeim sé unnt
að lifa sig inn í hann.8 Þannig eru raundúkkur líka úr garði gerðar, þeim er
ætlað að herma eins nákvæmlega eftir raunverulegum konum og kostur er.
Það gerir eigendum þeirra hægara um vik en ella að gangast blekkingunni
á vald. Eftirfarandi lýsingu má finna á vef AbyssCreations sem framleiðir
raundúkkur í stórum stíl:
5 Þróunarstig myndarinnar eru fjögur, Baudrillard útleggur þau svo:
hún speglar djúpstæðan veruleika,1.
hún dylur og umbreytir eðli djúpstæðs veruleika,2.
hún felur fjarvist hins djúpstæða veruleika,3.
hún hefur alls engin veruleikatengsl: hún er sitt eigið líkneski og ekkert annað. 4.
Jean Baudrillard, „Framrás líkneskjanna“, Atvik 3: Frá eftirlíkingu til eyðimerkur,
þýð. Ólafur Gíslason, ritstj. Geir Svansson, Reykjavík: Bjartur og Reyk-
javíkurAkademían, 2000, bls. 42–60, hér bls. 49.
6 Sama rit, bls. 50.
7 Sama rit, bls. 51.
8 Umberto Eco, Travels in Hyperreality, London: Picador, 1986, bls. 43–44.