Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 164
164
SIGRúN MARGRéT GuðMuNDSDÓTTIR
að ráða dúkkusmið að nafni Hermione Moos til að búa til dúkku í fullri
stærð, sem átti að vera nákvæm eftirmynd hinnar svikulu Ölmu. Oskar ætl-
aði dúkkunni greinilega kynferðislegt hlutverk því húð hennar átti að vera
mjúk og brjóstin og rasskinnarnar ‚kreistanlegar‘. Munnurinn átti að geta
opnast og í honum þurfti að vera tunga og tennur. Sköpin áttu að vera full-
komin, gróskumikil og þakin hári. Dúkkan var fullgerð árið 1919 og
Kokoschka tók hana með sér í óperuna, hélt henni veislur og réði þjón-
ustustúlku til að klæða hana og þjónusta. Þetta uppátæki hneykslaði og
ögraði samferðamönnum Kokoschka og óhjákvæmilega ræddu þeir sín á
milli hvað hann gerði nákvæmlega við dúkkuna. Dúkkan Alma dansar á
mörkum raunveruleika og listar því vart er hægt að fjalla um hana sem
listaverk án þess að taka mið af ævi og ferli Kokoschka. Smám saman virð-
ist hann hlutgera sjálfan sig, sem má til dæmis sjá af þremur myndum sem
hann málaði af sjálfum sér og dúkkunni þar sem hann líktist sjálfur brúðu
æ meira með hverri myndinni. Dagbækur hans vitna jafnframt um að
dúkkan hafi þau áhrif að honum líði eins og hann sé hlutgerður.10
Það sama á við um Svein; ekki er nóg með að hann hlutgeri konur held-
ur er honum sjálfum líkt við dúkkustrák. Nágrannar hans kalla hann Gosa
og hann samsamar sig sjálfur spýtustráknum þegar hann hugleiðir atvinnu
sína:
Allan þann tíma hafði hann hrósað happi yfir að vera ekki lengur í
námi, og líklega var þetta illskárra hlutskipti en sú vítiskvörn. En nú
sá hann það í allt öðru ljósi. Nú þótti honum það sambærilegt ef
spýtustrákurinn Gosi hefði breyst úr lífvana trébrúðu í lífvana lítinn
dreng. Það var sannarlega ekki sú tegund af ævintýri sem móðir
hans óskaði honum þegar hún fæddi hann í heiminn. (bls. 276)
Atburðarás Skaparans hverfist um tiltekna dúkku. Líkt og Alma Kokoschka
er dúkkan smíðuð með óskir kaupanda í huga. Slíkar óskir koma þó líklega
fyrst og fremst fram í gegnum markaðsrannsóknir þótt vissulega megi
leggja inn sérpantanir. Þó að Sveinn segist ekki hafa áhuga á „útreiknaðri
markaðssetningu“ og láti sér fátt um finnast hvað „meðalmanninum [þyki]
eftirsóknarverðast í fari silíkondúkku“ (bls. 142) eru dúkkurnar hans frem-
ur ,hefðbundnar‘. Á heimasíðu raundúkkufyrirtækis sem líkist kannski því
sem Sveinn hyggst stofna geta kaupendur t.d. valið á milli um það bil tíu
10 Bonnie Roos, „Oskar Kokoschka’s Sex Toy. The Women and the Doll Who Con-
ceived the Artist“, Modernism/Modernity 2/2005, bls. 291–309, hér bls. 291–292.