Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 166
166
SIGRúN MARGRéT GuðMuNDSDÓTTIR
(Kynlífs)dúkkusmíði hefur breyst talsvert frá því snemma á 20. öld en dúkka
Sveins er engu að síður náskyld eftirmyndinni af Ölmu hans Kokoschka.
Textatengslin eru ekki einungis fólgin í nafninu heldur er dúkka Kokoschka
einnig með svart sítt og strítt hár, af myndum af henni að dæma virðast varir
hennar líka rósrauðar. Ásýnd hennar er reyndar fremur hrollvekjandi –
enda tæknin og efnin önnur á fyrri hluta síðustu aldar en nú – og úr bréfi
Kokoschka til Moos má lesa að hún sé með ,óskorin’ skapahár, rétt eins og
Goth-Chick Alma hjá raundúkkufyrirtækinu.
ætla má að raundúkkur þjóni svipuðum tilgangi og dúkka Kokoschka,
þ.e. þær eigi að vera eftirmynd eða öllu heldur staðgengill konu. Þær koma
reyndar ekki í stað raunverulegra kvenna eins og Ölmu Mahler en þær eru
viðföng ástúðar og kynferðislegra óra manna. Vísast hafa flestir fordóma í
garð þeirra sem kaupa kynlífsdúkkur, eða í það minnsta einhverjar fyrir-
fram mótaðar hugmyndir um tiltekna manngerð sem leitar í slíka vöru.
Gera má ráð fyrir að mörgum þyki þær frekast vitna um að eigendur þeirra
skorti eitthvað; hugsanlega megni þeir ekki að eiga samskipti við hitt kynið
eða séu utanveltu í samfélaginu, hafi undarlegar áherslur í kynlífi eða
dúkkan sé þeim blæti.12
Sveinn býr dúkkuna Ölmu til fyrir Kjartan, sem er einmana gæðablóð,
eilítið aumkunarverður og á fáa að. Hann hefur helst selskap af Sveini og
aldraðri móður sinni sem býður honum – fullorðnum manninum – jafnvel
upp á „smá kókópöffs á disk til að seðja sárasta hungrið“ (bls. 70) á meðan
lærið mallar í ofninum. Kjartan, sem á eina dúkku fyrir, virðist ekki hafa í
hyggju að standa í stóðlífi og hóp(dúkku)reið heldur er hann fyrst og
fremst á höttunum eftir félagsskap og einhverju/m til að vera góður við,
eða viðfangi til að beina ástúð sinni að. Hann lætur með dúkkuna líkt og
hún væri lifandi stúlka eins og sjá má þegar Sveinn spyr:
Ertu þá loksins búinn að prufukeyra hana?
Það liggur nú kannski ekkert lífið á því, svaraði Kjartan.
Hún er svo ung, greyið, og horfir alltaf svo kankvís á
mig þegar ég sting upp á þessu við hana. (bls. 74)
12 Heimildamyndin Guys and Dolls (2007) fjallar um nokkra eigendur raundúkka sem
eiga það sameiginlegt að eitthvað hindrar þá í að eiga í eðlilegum ástarsamböndum
við lifandi konur. Raundúkkurnar verða þeim flestum staðgenglar raunverulegra
kvenna.