Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 170
170
SIGRúN MARGRéT GuðMuNDSDÓTTIR
lítinn félagsskap, utan móður sinnar, Sveins og silíkon-stelpnanna. Þá er
ótalinn Sveinn sem einangrast vegna kynlífsdúkkusmiðjunnar og verður
fyrir fordómum og áreitni vegna atvinnu sinnar.
Sofandi ævintýraprinsessur í Skaparanum vekja einnig athygli á
almennu sinnuleysi, en Guðrún Eva gerir þær að umræðuefni í viðtali við
Höskuld Ólafsson:
[Ég] nota minni sem margir þekkja úr ævintýrum um Mjallhvíti og
Þyrnirós þar sem söguhetjan liggur sofandi allan tímann. […]
Dúkkan minnir auðvitað á sofandi konu.15
Lóu er líkt við Gullbrá í ævintýrinu um birnina þrjá, hún hefur ljósa lokka
og misnotar gestrisni Sveins; borðar matinn hans, sefur í rúminu hans og
stelur svo af honum dúkkunni. Margrét liggur í nokkurs konar dvala í
rúminu sínu og minnir þannig á Þyrnirós og um Björgu er sagt að „ef var-
irnar hefðu verið rjóðari hefði kvenlýsingin úr ævintýrinu átt ágætlega við
hana; hár eins og íbenholt, hörund eins og snjór, varir eins og blóð“ (bls.
92). Lýsingin er í beinum textatengslum við þýðingu Magnúsar Grímssonar
á ævintýrinu um Mjallhvíti.16 Dúkkan er einnig kölluð Mjallhvít við nokk-
ur tækifæri og líkist henni jafnframt í útliti. Mjallhvítarlíkingin fær víðari
skírskotun þegar dúkkunum er líkt við persónur úr Disney-teiknimynd:
[Sveinn] gerði allt sem hann gat til að gefa tilfinningu fyrir innra lífi
í andlitum stelpnanna. […] Í fyrsta lagi urðu augun að vera stór en
ekki um of – ekki þannig að minnti á hrædda manneskju í hryllings-
mynd. Í þessum bransa var auðvelt að misstíga sig og búa til eitthvað
sem var óhugnanlegt fremur en heillandi. Í því samhengi var líka
mikilvægt að þær væru sætar frekar en beinlínis fagrar. Svolítill
teiknimyndablær. Disney. (bls. 140–141)
„Disneylegt“ útlit dúkkunnar minnir aftur á hugmyndir Baudrillards um
ofurraunveruleikann, en samkvæmt þeim er Disneyland „djúpfryst[ur]
smá barnaheimur“ sem breiðir yfir „þá staðreynd að það er hið raunveru-
lega land, öll hin „raunverulega“ Ameríka sem er Disneyland“.17 Þannig
15 Höskuldur Ólafsson, „Eins og alvöru fólk“. Lesbók Morgunblaðsins, 13. desember
2008, bls. 4.
16 Vefslóð: http://is.wikisource.org/wiki/Mjallhv%C3%ADt. Sótt 19. desember
2010.
17 Jean Baudrillard, „Framrás líkneskjanna“, bls. 51.