Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 173
173
HVÍT EINS OG FRAUÐPLAST
Kápa bókarinnar var rædd hér í upphafi og látið í veðri vaka að hún ein
og sér gæti lokkað menn til að kaupa verkið. Björn Þór skrifar um kynlífs-
dúkkuna á svipuðum nótum í gagnrýni sinni og bendir á að:
væntanlegur lesandi þurfi ekki nema að fá veður af grunnhugmynd
skáldsögunnar til að hugsa sér gott til glóðarinnar. Það er frumlegt
og býsna óvenjulegt að smíða sögu þar sem kynlífsdúkkusmiður
stendur í miðju atburðarásarinnar, þetta er jú sjaldgæf iðn og lítt í
umræðunni, jafnvel mætti segja að allnokkur feimni umlyki alla
jafna umfjöllun um hjálpartæki ástarlífsins, og þá ekki síst blætis-
kenndar vörur á borð við kynlífsdúkkur.23
Eins og Björn víkur að er grunnhugmynd Skaparans vægast sagt forvitni-
leg, en hann segir einnig að fátt af því sem honum þyki kynlífsdúkkan lofa
„skil[i] sér inn í skáldsöguna“, það er að segja „skírskotunarkerfið í kring-
um kynlífsdúkkubransann [sem] getur verið býsna víðfeðmt“.24 Atburða-
rásin sem í grófum dráttum einkennist af dúkkuþjófnaði, eltingarleik og
mannshvarfi ber keim af glæpasagnafléttu og um vinsældir glæpasagna síð-
ustu ár þarf vart að fjölyrða; hér verður látið nægja að nefna að þær hafa
verið í efstu sætum metsölulistanna síðustu misseri. Glæpa sagnaeinkenni
sögunnar ná þó vart lengra en hér hefur verið lýst. Sagan lofar sem sagt
ákveðnu fjöri – sem síðan er ekki staðið við.
Eða hvað? Kynlífsdúkkan er ekki einungis öngull fyrir forvitna lesend-
ur heldur vekur hún athygli á stöðu listamannsins í samfélagi þar sem allt
er til neyslu. Sveinn og Lóa starfa bæði við að skapa fjöldalist – og ætla má
að það geri Guðrún Eva líka þegar litið er til þess að Skaparinn er senni-
lega markaðsvænsta verk hennar hingað til.25 Það má einnig velta vöngum
yfir því hvort lýsingar á hugmyndavinnu þeirra Lóu og Sveins eigi ekki
líka við um starf rithöfundarins. Tilurð auglýsinga Lóu er lýst svo:
23 Björn Þór Vilhjálmsson, „Hylki utan um ekkert“, bls. 116.
24 Sama rit, bls. 116.
25 Þetta má sjá t.d. í gagnrýni Þórarins Þórarinssonar á dv.is, en hann segir: „Ég hef
heyrt því fleygt að Skaparinn [skál. mín] sé „markaðsvænsta“ bók Guðrúnar Evu til
þessa og vel má vera að eitthvað sé til í því þótt ég geti nú ekki séð fyrir mér að
Guðrúnu Evu sé eitthvert sérstakt kappsmál að skrifa fyrir einhvern óskilgreindan
fjölda sem heldur þessum margumtalaða markaði uppi“. Vefslóð: http://www.dv.
is/kritik/2008/11/16/leikur-ad-tilfinningum. Sótt 5. janúar 2011. Í þessu samhengi
má nefna að bókin olli miklu fjaðrafoki meðal útgefenda í Þýskalandi og efna
þurfti til uppboðs á útgáfuréttinum.