Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Side 176
176
JONATHAN COLE
það sé ekki nóg að almennur skilningur ríki í samfélaginu á áhrifum vísinda-
rannsókna. Háskólastofnanir geti ekki þrifist til lengdar nema þær njóti fulls
og óskoraðs akademísks frelsis. Það felur í sér að stjórnvöldum, aðilum við-
skiptalífsins eða hagsmuna- og þrýstihópum megi ekki líðast að ná tangarhaldi
á háskóla- og rannsóknastofnunum. Innan háskólanna verði í fyrsta lagi að
ríkja óheft mál- og tjáningarfrelsi, þannig að rökræðum um menningu, stjórn-
mál, vísindi og fræði, hvort heldur er sem hluti af kennslu, rannsóknum eða
umræðum innan háskólasamfélagsins megi ekki setja skorður. Í öðru lagi þurfi
stjórnendur háskólanna að hvetja akademíska starfsmenn sína til að taka þátt í
samfélagslegri umræðu og þannig leitast við að veita umræðu háskólanna út í
samfélagið, frekar en að einangra háskólann frá umræðum og deilum um sam-
félagsleg markmið og gæði.
Í kaflanum „Akademískt frelsi og frjálsar rannsóknir“ fjallar Cole um
nokkur tímabil í sögu síðustu aldar þegar háskólasamfélaginu í Bandaríkjunum
var ógnað vegna pólitískra afskipta. Alvarlegasta árásin á akademískt frelsi
birtist í ofsóknum óamerísku nefndarinnar svokölluðu undir forystu öldunga-
deildarþingmannsins Josephs McCarthy, uppúr 1950, sem beindust að róttæku
fólki í Bandaríkjunum, ekki síst akademískum starfsmönnum háskóla. Cole
heldur því fram að á valdatíma George Bush yngri hafi samskonar ofsóknir
hafist þó að þær hafi ekki gengið jafnlangt og ofsóknir McCarthytímans og
verið annars eðlis.
Á meðan Cole var aðstoðarrektor Columbia háskóla og eftir að hann lét af
því starfi hefur hann tekið virkan þátt í baráttunni fyrir akademísku frelsi. Á
síðustu árum hefur slík barátta ekki síst snúist um að verja rétt háskólakennara
til að fjalla opinskátt og á eigin forsendum um viðfangsefni sín í kennslustof-
unni, en árásir á háskólakennara fyrir „hlutdrægni“ urðu mjög umtalaðar á
árum Bush-stjórnarinnar, ekki síst eftir að samtökin Campus Watch fóru að
láta til sín taka. Þau hafa haldið uppi baráttu gegn fjölmörgum fræðimönnum
og háskólakennurum á sviði Miðausturlandafræða fyrir það sem samtökin telja
rangar niðurstöður, öfgar og tilraunir til að gera lítið úr ofbeldisverkum. Cole
hefur skipað sér í hóp þeirra sem mesta áherslu leggja á tjáningarfrelsi í
háskólakennslu. Í nýlegri grein í tímaritinu Daedalus segir hann: „Það sem sagt
er í kennslustofunni þarfnast nánast fullkominnar verndar. Sé hún ekki til
staðar, munu háskólakennarar hika við að ræða viðkvæm mál af ótta við hefnd-
arráðstafanir, tímabundna brottvikningu, brottrekstur eða málaferli.“2
Í kaflanum úr The Great American University sem hér birtist í íslenskri þýð-
ingu skýrir Cole hversvegna akademískt frelsi er grundvallaratriði í háskóla-
starfsemi og hvaða fórn er færð með að skerða það.
Jón Ólafsson
2 Jonathan Cole, „Academic Freedom under Fire“, Daedalus 2/135 (2) vor 2005, bls.
1–13, bls. 12.