Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 185
185
AKADEMÍSKT FRELSI OG FRJÁLSAR RANNSÓKNIR
farasinnaður menntamaður og álitsgjafi sem skrifaði í The New Republic,
brást við brottrekstri Nearings með því að varpa fram spurningu: „Hver á
háskólana?“ Hann hélt því fram að „nútímaháskólinn snerist ekki um
einkaeign heldur um almannavelferð“ og bætti því við að „ábyrgðarlaust
eftirlit stjórnar sem í sitja uppblásnir áhugamenn dugir ekki lengur til að
tryggja skilvirka starfsemi þeirrar vísindalegu og samfélagslegu rannsókn-
arstofu í þágu samfélagsins sem háskólarnir eru að verða.“12
Eftir því sem Bandaríkin færðust nær því að hefja þátttöku í stríðinu,
minnkaði umburðarlyndi gagnvart andstæðingum þátttöku. Þegar stríði
hafði verið lýst yfir voru sett lög um njósnir og áróður gegn yfirvöldum,
sem gerðu glæpsamlegan „hverskyns dónaskap, rógburð, ótryggð og nið-
urrif í yfirlýsingum […] um stjórnarhætti Bandaríkjanna, stjórnarskrá
þeirra og fána.“13 Meira en 1000 einstaklingar voru dæmdir fyrir að brjóta
þessi lög. Í bandarískum háskólum var lítið umburðarlyndi gagnvart and-
ófi. Tilraunir Samtaka bandarískra háskólakennara til að verja „akademískt
frelsi“ kunna að hafa haft eitthvert táknrænt gildi, en sigrarnir voru fáir.14
Örfáir háskólakennarar kunna að hafa verið útsendarar þýskra stjórn-
valda, en ef svo var, þá gat enginn flett ofan af þeim. Að sjálfsögðu hikuðu
einhverjir háskólamenn ekki við að láta í ljós andstöðu sína við að
Bandaríkjamenn blönduðu sér í stríðið og til voru þeir sem aðhylltust
sósíalískar hugmyndir. Leiðtogar háskólanna þögguðu niður andófsraddir,
stundum af persónulegri sannfæringu. Og þar sem óþol gagnvart andófi
kom ekki til af sannfæringu, beittu leiðtogarnir sér gegn andófi vegna þess
að stjórnarmenn, hollvinir skólanna og jafnvel hluti kennaranna krafðist
þess. Sú þörf að standa vörð um „orðspor“ stofnunarinnar og halda auð-
12 John A Saltmarsh, Scott Nearing: An Intellectual Biography (Philadelphia: Temple
University Press, 1991), bls. 102.
13 David Cole, Enemy Aliens, New York: New Press, 2003, bls. 112.
14 Á þessum árum voru til upplýstir leiðtogar í háskólum – einstaklingar sem skildu
lykilhlutverk akademísks frelsis í uppbyggingu góðra háskóla. Því er ef til vill ekki
að undra að William Rainey Harper, fyrsti rektor Chicago háskóla, sýndi að hann
skildi þetta þegar hann benti á það árið 1892 að: „Fólk verður að muna að þegar
stjórn stofnunar [háskóla] eða kennsla í einhverri af deildum stofnunarinnar tekur
breytingum vegna ytri áhrifa, hverjar svo sem ástæður þeirra eru, og hvenær sem
reynt er að velta stjórnanda eða kennara úr sessi vegna þess að stjórnmálaviðhorf
meirihlutans hafa breyst, þá hefur stofnunin hætt að vera háskóli.“ Geoffrey Stone
vakti athygli mína á þessum ummælum Harpers. Sjá William Rainey Harper, The
Trend In Higher Education, Chicago: University of Chicago Press, 1905, bls. 8, sjá
einnig http://www. archive.org/stream/trendinhigheredu00harprich/trendinhig-
heredu00harprich_djv.txt.