Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Side 46
45
lýsingu á greininni og er að mestu óháð sögulegu samhengi.31 Á hinn bóg-
inn segir þessi lýsing okkur afskaplega lítið um textana í verki Painters
og sum þeirra efnisatriða sem nefnd voru hafa lítið sem ekkert með þá
texta að gera. Þetta stafar að hluta til af því að skáldsagan og smásagan eru
greinar eða bókmenntaform sem voru ekki til í nútímaskilningi á seinni
hluta sextándu aldar á Englandi og því er ekki hægt að nota þau hugtök til
að afmarka lýsingu á bókmenntagrein frá því tímabili. Það er nauðsynlegt
að skilgreina hugtakið á þann hátt að það endurspegli þá texta sem hér um
ræðir á merkingarbæran hátt. Því er það að hugtakið nóvella er oft notað
á þrengri hátt til að vísa til verka sem talin eru dæmigerð fyrir greinina á
þessu tímabili, en þar eru verk Boccaccios og Marguerite de Navarre mið-
læg. Þessi útilokandi (e. exclusive) leið til að hugsa um nóvelluna, svo við
notum hugtak Altmans á ný, ræðst að miklu leyti af sögulegu samhengi,
það er að segja, styðst við dæmi frá ákveðnum tíma og stað til að skilgreina
mörk hennar. Hins vegar er hætt við að slík útilokandi skilgreining hafni
þeim textum sem eru ódæmigerðir og falla utan þessa ramma.32 Enda er
það svo að ef þessi skilgreining er notuð, þá væri ekki hægt að skilgreina
ansi marga af textum Painters í The Palace of Pleasure sem nóvellur.
Vandamálið við að nota þekktustu nóvelluhöfundana (Boccaccio,
Marguerite de Navarre) til að skilgreina bókmenntagreinina er að sögur
þeirra eru margvíslegar (þó ekki jafn fjölbreytilegar og sögur Painters)
auk þess sem aðrir höfundar gáfu út nóvellur sem voru töluvert ólíkar.
Það er líka vert að hafa í huga að Boccaccio sjálfur, sem venjulega er tal-
inn upphafsmaður greinarinnar og sá sem fyrst nefndi þessa texta nóvellur,
skilgreindi mörk hennar mjög lauslega. Í inngangi sínum að Tídægru segir
hann: „[ég] ætla að segja hundrað nóvellur, eða goðsögur eða dæmisögur
eða söguþætti, eins og við viljum kalla þær“.33 Það má túlka þessi orð hans
annað hvort þannig að það megi nota þær greinar sem hann nefnir til að
lýsa verki hans eða þannig að hann sé að gefa í skyn að þær mismunandi
greinar sem hafi verið notaðar til að segja sögur séu innlimaðar í hið nýja
hugtak hans. Hvort heldur er, þá er ekki skýrt hvernig hann staðsetur verk
sitt gagnvart öðrum greinum. Einnig er í orðum hans að finna upphaf þess
31 Rick Altman, „A Semantic/Syntactic Approach to Film Genre“, Film/Genre, Lond-
on: British Film Institute, 1999, bls. 216–226, hér bls. 216–17.
32 Sama verk.
33 “...intendo di raccontare cento novelle, o favole o parabole o istorie che dire le
vogliamo.” Giovanni Boccaccio, Decameron, Einaudi, 1992. Sjá http://www.brown.
edu/Departments/Italian_Studies/dweb/index.php.
HÖLL ÁNÆGJU OG GAGNSEMI