Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Qupperneq 58
57
meðan þeim slæmu farnist vel. Eins og Jonathan Dollimore hefur bent á
þá eru „makleg málagjöld“, þar sem hinir réttlátu fá laun erfiðis síns en
hinum syndugu er refsað, og jafnvel enn mikilvægara þar sem refsingin
hæfir glæpnum, hluti af því sem talið var skilja að skáldskap og sagna-
ritun.66 Sidney segir að þar sem sagnaritarar þurfa að lýsa fólki eins og
það sé í raun, bæði því jákvæða og neikvæða, séu verk þeirra ekki vel til
þess fallin að kenna muninn á réttu og röngu.67 Hann heldur því fram að
skálduð dæmi séu jafn áhrifarík við að kenna eins og sönn vegna þess að
með þeim geti skáldið virkjað tilfinningar og ástríður lesenda. Jafnframt
skapi góð skáld ekki eftirlíkingu af raunveruleikanum heldur lýsi „því sem
getur verið og ætti að vera“ og séu því hæfari til að innræta siðferðileg-
an boðskap en sagnaritarinn.68 Það er ljóst frá hliðartextunum í þýðingu
Painters að hann leit ekki svo á að sagnaritun og sönn dæmi hentuðu illa
til uppfræðslu. Þvert á móti er honum mikið í mun að tengja sögur sínar
sannleika og sagnaritun, ekki síst til að leggja áherslu á nytsemi þeirra.
Painter gerir ekki greinarmun á frásögn af því tagi sem sagnaritarar sendu
frá sér og nóvellum; eins og fyrr segir kallar hann sögur sínar „histories“
og nóvellur jöfnum höndum. Þær eru sannar sögur sem geta kennt fólki.
Enska orðið histories hafði mun víðtækari merkingu á sextándu öld en í dag
og það var hefð fyrir því að kalla alls konar texta því nafni. Sem dæmi má
nefna skilgreininguna á historia í athugasemdum Veltkirchius um Erasmus:
„Tegund varnarrits (gr. apologia) sem lýsir því sem satt er og ánægjulegt
eða upplýsandi að vita. Þemu þess eru meðal annars dyggðir, lestir, ráð-
leggingar, atburðir og speki mikilla manna.“69 Margir þýðendur notuðu
þetta orð í titlum verka sinna þó að efni þeirra væri ekki skilgreint sem
„histories“ í dag.70 Painter notar bæði heitin þegar hann vísar til textanna
66 Jonathan Dollimore, Radical Tragedy: Religion, Ideology and Power in the Drama of
Shakespeare and his Contemporaries, 2. útg., New york: Harvester Wheatsheaf, 1989,
bls. 72.
67 Sama rit, bls. 214.
68 Sama rit, bls. 218.
69 Veltkirchius, Erasmus de duplicii copia verborum et rerum commentarii duo […] ac M.
Veltkirchii commentaris (London, 1569). Tilvitnun í: Lee A. Sonnino, A Handbook
to Sixteenth Century Rhetoric, London: Routledge & Kegan Paul, 1968, bls. 229.
70 Sem dæmi má nefna Pedro Mexia, The Foreste or Collection of Histories, no lesse prof-
itable, then pleasant and necessarie, þýð. Thomas Fortescue, London: Imprinted by
[H. Wykes and] Jhon Kyngston, for Willyam Jones, 1571. George Whetstone,
The Right Excellent and Famous Historye of Promos and Cassandra, 1578, The Tudor
Facsimile Texts, London: 1910.
HÖLL ÁNÆGJU OG GAGNSEMI