Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Page 61
60
Hvaða gagn og ánægju sögur gefa þeim sem leitar af ákafa að þeim,
segir Tullie í fimmtu bók De finibus bonorum et malorum ad Brutum,
þar sem hann viðurkennir að hann sé ekki fáfróður um þá ánægju
og gagnsemi sem sögur veiti. […] Ef Tullie, Prins Ræðumannanna,
viðurkennir þá gagnsemi og ánægju sem finna má við lestur sagna,
hversu réttilega hef ég þá nefnt þetta verk Palace of Pleasure.79
Painter gerði sér grein fyrir að verk hans væri líklegt til verða gagnrýnt,
ekki aðeins af þeim sem vantreystu hvers konar nýlundu eða hverju því
sem virðist framandi í bókmenntum, heldur ennþá fremur hinum sem
voru þeirrar skoðunar að aðeins grísk og rómversk verk væru heppilegt
lestrarefni fyrir enska lesendur og litu á ítalska og franska samtímamenn-
ingu sem ógn við enska menningu.
Painter vísar ekki aðeins í viðurkennda höfunda til að treysta stöðu
verks síns, heldur leggur hann mikla áherslu á að upplýsa um uppruna
þeirra frásagna sem hann þýðir. Í inngangsefni fyrstu útgáfu fyrsta bindis
rekur hann nákvæmlega í „efnisyfirliti“ hvaðan hann hefur fengið það efni
sem hann þýðir. Þessar upplýsingar eru ekki jafn skipulega fram settar í
þriðju útgáfu frá 1575, sem var frumtexti nítjándu aldar útgáfnanna sem
Haslewood og Jacobs sendu frá sér. Í þeirri útgáfu, líkt og í fyrstu útgáfu
annars bindis, má finna lista sem ber yfirskriftina „Höfundar frá hverjum
þessar nóvellur eru valdar eða sem vísað er til á mismunandi stöðum í
þeim hinum sömu.“ Sá fyrri er nefndur Grískir og Latínu Höfundar en
sá seinni Ítalskir, Franskir, og Enskir.80 Auk þessa telur Painter upp upp-
runa þeirra í „Til lesenda“ þar sem hann skiptir þeim í tvo flokka, annars
vegar „Viðurkennda höfunda“, en í þeim flokki eru t.d. Xenophon, Aulus
Gellius and Plútark, hinsvegar „aðra“. Hann greinir frá fjölda nóvella sem
hann þýðir frá Boccaccio og Bandello og lýsir því af hverju hann velur að
þýða þann síðarnefnda úr frönsku en ekki ítölsku.81 Þessar upplýsingar um
heimildir og höfunda hafa þann augljósa tilgang að sýna fram á lærdóm
Painters og hve vel lesinn hann var, bæði til að réttlæta val hans og sam-
hliða að auglýsa efnið sem hann var að gefa út sem eitthvað nýtt.
Painter blandar markvisst saman gömlu og nýju efni. Hallarlíking hans
sýnir að hann sá verk sitt sem heild sem hafði til að bera fegurð, líkt og háir
og tignarlegir turnar. En höll þarf að hafa traustan grunn til að geta borið
79 Painter, The Palace of Pleasure, ¶¶¶2r.
80 Painter, The Palace of Pleasure, ¶¶¶2v.
81 Sama rit, ¶¶3rv.
Ásdís siGmundsdóttiR