Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2015, Page 88
87
evrópskra höfunda hvort unnt væri að telja íbúa Grænlands til mannkyns
eða ekki, voru þeir kannski fremur dýr? Þetta viðfangsefni er eitt grunnstef
þeirra höfunda sem getið hefur verið um hér að framan.
Eftir því sem tímar liðu varð aðgreiningin á milli ímynda Íslands og
Grænlands enn meiri en hér hefur verið lýst, víkingaorðræðan um Ísland
varð ráðandi: Hugmyndin um hið menntaða Ísland sem Hellas norðursins.
En þrátt fyrir breytingar, þrátt fyrir að ráðandi ímyndir yrðu ólíkar, var
samt sem áður samhljómur í lýsingum á löndunum tveimur, enda lifðu
eldri hugmyndir samhliða þeim sem síðar komu til. Þá var framandleiki
beggja landa og þjóða áfram mikill, bæði löndin voru áfram furðueyjar,
heterótópíur: Staðir án þess að vera staðir.
Ú T D R Á T T U R
Innan eða utan Evrópu?
Ímyndir Íslands og Grænlands
á ofanverðri 18. öld og fram eftir 19. öld
Orðræðan um Ísland og Grænland er um margt svipuð á umfjöllunartímabilinu en
einnig ólík. Samkvæmt mörgum lýsingum voru Íslendingar andstæða siðmenningar
og nútíma, ýmist siðlausir villimenn eða göfugir og góðir. Í orðræðu nýlenduhyggju
og nútímavæðingar var Íslendingum því oft líkt við fólk á jöðrum Evrópu eða utan
álfunnar.
Á umfjöllunartímabilinu varð umræða um íslenska miðaldasamfélagið æ mik-
ilvægari. Hún var gerð skiljanleg með því að bera það saman við Grikkland hið
forna. Kynþáttahyggja fór einnig að einkenna lýsingar á Íslandi í vaxandi mæli eftir
því sem leið á 19. öld. Ásamt þjóðernishyggjunni varð hún til þess að farið var að
upphefja Ísland og Íslendinga og víkingaorðræðan um Ísland varð til.
Viðhorf til Grænlands á tímabilinu breyttust minna en viðhorf til Íslands. Sem
fyrr sýndu ímyndir landsins Grænlendinga bæði sem skelfilega villimenn og göfuga
villimenn. Orðræða kynþáttahyggjunnar mótaði mjög orðræðuna um Grænland og
leiddi til þess að Grænland varð jafnvel enn „fjarlægara“ en verið hafði.
Orðræðunni um Ísland og Grænland svipar oft til umfjöllunar um framandi
svæði utan Evrópu. Við getum kallað þennan framandleika bórealisma, hitabelt-
ishyggju (tropicality) með einkennum hins ysta norðurs. Orðræða nýlenduhyggjunn-
ar var því sú „þekking“ sem oft var yfirfærð á Ísland og Grænland.
Það ferli sem hér hefur verið fjallað um einkenndist af efasemdum eða tvíbentri
afstöðu (ambivalence), efasemdum um hvers konar samfélög væru í þessum löndum.
Voru Íslendingar villimenn eða siðmenntaðir, voru þeir Eskimóar eða Hellenar?
INNAN EÐA UTAN EVRÓPU?