Glóðafeykir - 01.04.1989, Síða 33
GLOÐAFEYKIR
31
Verslunin
Aukin umsvif kaupfélagsins í verslun um og eftir 1918 kölluðu á meiri
húsakost og var ráðist í það síðla árs 1918 að kaupa hús og lóðir
Sigurgeirs Daníelssonar. Arið 1920 var svo byggt við og ofan á
Sigurgeirshús og 1931 var Grána keypt aftur.
Kreppan skall mjög óvænt á 1930, en fór þó ekki að gæta hér að ráði
fyrr en ári seinna. Þegar verð á gjaldeyrisvörum hafði lækkað allt að
helming greip kaupfélagsstjórinn til þess ráðs að takmarka mjög
vöruúttekt félagsmanna til að sporna gegn skuldaverslun. Grána var
þá leigð um sinn vegna minnkandi viðskipta af þeim sökum. En
fljótlega var þó sett upp verslun í Gránu og hafði félagið þá tvær búðir.
Voru þær í daglegu tali ætíð nefndar Ytribúð og Syðribúð.
Með stækkun bæjarins til suðurs þótti nauðsynlegt að koma upp
verslun sunnar í bænum. Um þetta var rætt 1940. Fimm árum síðar
bauðst félaginu á leigu verslun Þorvaldar Þorvaldssonar. Var gerður
leigusamningur til fimm ára og var hann endurnýjaður 1950.
Þegar frystihúsið var flutt út á Eyri 1953, var gamla húsinu við
Freyjugötu breytt að innan og þar sett upp mjólkur- og kjötbúð og
ennfremur kjötvinnsla.
Um þetta leyti var mjög orðið þröngt um alla þætti verslunarinnar í
gömlu Claessensbúð (Syðribúð) og Gránu (Ytribúð). Árið 1956 var
alvarlega farið að huga að því að auka við verslunarhúsnæðið. Voru
margir kostir skoðaðir. Þegar félaginu bauðst að kaupa hús og lóðir
Sigurðar Sigfússonar, bæði búðina og Aðalból, hús K.G. kaupmanns,
er stóð við hliðina á búðinni, var sá kostur valinn. Vefnaðarvörudeildin
var flutt úr gömlu Syðribúðinni og kaupfélagsstjórinn flutti í íbúðina á
efri hæðinni í þessu nýja húsi, sem nokkur ljómi var yfir á þessum
árum. En Sigurður Sigfússon hafði verið skæður keppinautur
kaupfélagsins.
Kjöt- og mjólkurbúðin við Freyjugötu þjónaði aðallega
bæjarversluninni, en varð fljótt of lítil. Því var ráðist í að byggja
myndarlegt verslunarhús við Skagfirðingabraut. Árið 1961 var þar
opnuð ein fyrsta kjörbúðin á íslandi, en það verslunarform var þá að
ryðja sér til rúms. I þessu nýja húsi var einnig sérstök fiskbúð og
mjólkurbúð og auk þess kjötvinnsla og reykofn á efri hæðinni.