Glóðafeykir - 01.04.1989, Síða 70
68
GLOÐAFEYKIR
bóndi og vildi í hvívetna sjá fótum sínum forráð.
Árið 1918 gekk Haraldur að eiga Ingibjörgu Bjarnadóttur (Hesta-
Bjarna) frá Reykjum í Hjaltadal, Jóhannessonar, og konu hans
Þórunnar Sigfúsdóttur bónda í Eyhildarholti o. v., Péturssonar. og
fyrri konu Sigfúsar Ingibjargar Sigurðardóttur í Ási í Hegranesi,
systur Olafs alþingismanns í Ási. Var Ingibjörg á Völlum alsystir
Herdísar á Veðramóti, sjá Glóðaf. 22, bls. 72.
Þau Haraldur og Ingibjörg eignuðust 4 börn: Jónas, hreppstjóra og
bónda á Völlum, Friðrik, dó tveggja ára gamall, Þórunni. kennara,
lést 1958 og Jóhannes, veghefilsstjóra og bónda á Sólvöllum, nýbýli
frá Völlum. Haraldur missti konu sína á hásumri (2. júlí) 1975.
Haraldur á Völlum gegndi fjölda trúnaðarstarfa, enda
trúleiksmaður einstakur, nákvæmur og skyldurækinn í hverju starfi og
um alla hluti þess háttar maður, að óhugsandi var að hann níddist á
nokkru því, er honum var til trúað. Hann satí hreppsnefnd 1925-1970
og oddviti frá 1935. Hreppstjóri Seyluhrepps 1943-1970 og
sýslunefndarmaður 1936-1970. Átti sæti í skólanefnd nálega 30 ár og
lengstum formaður. I stjórn Búnaðarfélags Seyluhrepps 1928-1945.
Sat lengi í sóknarnefnd Víðimýrarsöfnuðar og meðhjálpari um hríð.
Hann var um árabil fjallskilastjóri í framhluta Seyluhrepps og
gangnaforingi miðflokks á Eyvindarstaðaheiði. Haraldur var í
yfirskattanefnd Skagafjarðarsýslu 1938-1943, endurskoðandi sýslu-
og sveitarsjóðsreikninga um árabil, í stjórn Héraðssamlags um hríð og
umboðsmaður Brunabótafélags íslands, símstöðvarstjóri fjölda ára,
áður en símastöðin á Völlum var flutt til Varmahlíðar. Á yngri árurn
sinnti hann málefnum ungmennafélaganna. bæði þar heima fyrir í
Seyluhreppi og var auk þess um skeið formaður Ungmennasambands
Skagafjarðar. Hann var á sinum tíma einlægur stuðningsmaður þess,
að stofnaður væri alþýðuskóli í Varmahlíð. en það var mikið
baráttumál skagfirskra hugsjónamanna.
Við alþingiskosningarnar 1942 skipaði Haraldur 2. sæti á lista
Sjálfstæðisflokksins í Skagafjarðarsýslu, sat á Alþingi um stund en
leiddist þingsetan, enda óvenju heimakær maður og fágætlega
traustum böndum tengdur heimili sínu, enda þótt eigi kæmist hjá að
vera oft að heiman um stundarsakir vegna opinberra starfa. Hann var
að eðlisfari rótgróinn íhaldsmaður, einkum á vissum sviðum. svo að
sumum þótti nóg um og meir en það. En íhaldssemi hans var að
verulegu leyti góðrar ættar, runnin að miklu af þjóðlegri rót. Hann
skorti víðsýni frekar en skilning, framfarahug og framkvæmdavilja