Glóðafeykir - 01.04.1989, Blaðsíða 56
54
GLÓÐAFEYKIR
Þórustöðum í Kaupangssveit, Hálfdánarsonar. Voru bæði þau hjón
eyfirsk að ætterni. Þau munu hafa verið síðustu búendur í Reykjaseli,
fluttu þaðan árið 1905.
Þau Sigfús og Bergþóra giftust árið 1916, voru fyrst á Hólum um
hríð, bjuggu á Stafnshóli í Deildardal 1921-1922, fluttu þá til
Sauðárkróks og stóð þar heimili þeirra æ síðan. Börn þeirra eru þrjú:
Friðþjófur, ekkjumaður, búfastur í Sandgerði, Sverrir. búsettur í
Reykjavík og Aslaug, húsfreyja á Sauðárkróki. Bergþóra lífir mann
sinn.
Eftir að til Sauðárkróks kom var Sigfús ökumaður um margra ára
skeið, átti hest og vagn og flutti fyrir bæjarbúa hvaðeina, er flytja
þurfti: áburð og eldivið, hey, byggingarefni o.s.frv. En atvinnan var
stopul, launin lág og lífið eigi alltaf dans á rósum að ýmsu leyti ólíkt
því, sem nú gerist á tímum ofgnóttar-óánægju. Með dugnaði og
eljusemi og nýtingu hvers tækifæris, sem gafst, tókst Sigfúsi að koma
undir sig fótum.
Þegar bílaöld rann upp var hestur og vagn dæmdur úr leik. Um þær
mundir fékk Sigfús vinnu hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. Um 30 ára
skeið var hann m.a. verkstjóri í gæruhúsi K.S. og sá um gærubindingu.
Um störf hans þar segir sá, er vel mátti vita: „Hvalreki þótti það
strákum að vera í nánd við hann, vinna með honum eða undir hans
verkstjórn. Andrúmsloftið kringum hann var einlægt þrungið
glaðværð og gáska í hófi. Ég held líka að hann hafi verið einn af þessum
köllum sem hafa vinnuna að ástríðu, því að verk sín vann hann ekki
aðeins glaður, heldur hamingjusamur líka. Þetta varð til þess að
glaðbeittir strákar sóttu í félagsskap hans, og sjálfum hafa honum
örugglega leiðst dauðyfli. Samt hélt hann allra manna fastast að verki
og leit ekki upp”. Við þessa lýsingu á skaphöfn og geðfari Sigfúsar er
því einu að bæta, að hann var ekki aðeins vinsæll meðal stráka
—unglingsdrengja, hann var vinsæll af öllum, er af honum höfðu
kynni, enda fylgdi honum ávallt glaðværð og hlýja. Geðríkur var hann
að eðlisfari og bráðlyndur nokkuð, en alltaf jafn fljótur til sátta.
Sigfús Björnsson var meðalmaður á vöxt og vel á fót kominn,
andlitsfríður, gráeygur, dökkhærður. Hann var ötull maður og eigi
kvartsár, mælti fátt um eigin hag, en hafði gaman af að ræða almenn og
opinber mál við vini og kunningja; gat verið glettinn á svip og kíminn í
orðum, en ávallt hlýr. Með honum þótti flestum gott að vera.