Glóðafeykir - 01.04.1989, Síða 77
GLÓÐAFEYKIR
75
Grund í Reykjavík uns yfir lauk. Mun honum, gömlum bónda og
rótföstum Skagfirðingi, löngum hafa fundist sem væri hann gestur þar
syðra þessi árin.
Árið 1915, hinn 9. apríl, kvæntist Bessi Elínborgu Björnsdóttur
prófasts á Miklabæ í Blönduhlíð, Jónssonar hreppstjóra og bónda í
Kollafirði á Ströndum vestur, Magnússonar bónda í Steinadal,
Illugasonar, og konu Björns Guðfinnu Jensdóttur bónda á Veðrará í
Önundarfirði, Jónssonar bónda í Hjarðardal, Guðlaugssonar, og
konu Jens Sigríðar Jónatansdóttur á Vöðlum, Jónssonar. Var
Elínborg kennari í Viðvíkurhreppi. Hún var mikil fríðleikskona og
úrvalsmanneskja, sem þau Miklabæjarsystkini öll. Elínborg lést 18.
mars 1942 mjög um aldur fram. Börn þeirra hjóna eru 4: Björn,
endurskoðandi hjá K.E.A. á Akureyri, Margrét, húsfreyja í
Reykjavík, ekkja eftir Daníel Feldsteð lækni, Gísli, áður bóndi í
Kýrholti, nú starfsmaður hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, Sauðárkróki
og Haraldur, prófessor við Manitobaháskóla í Winnipeg.
Nokkru eftir að Bessi missti konu sína kom til hans sem bústýra
Guðný Jónsdóttir, ættuð vestan af Skagaströnd, mikil dugnaðar- og
myndarkona. Stjórnaði hún öllu innan stokks með skörungsskap og
prýði, svo að allt hélst í sama horfi og áður. Guðný lést 25. júní 1966.
Hún ól Bessa tvær dætur og báru báðar nafn Elínborgar konu hans.
Dó hin eldri þeirra aðeins ársgömul, en sú yngri er Elínborg húsfreyja í
Hofstaðaseli, gift Vésteini bónda þar, Vésteinssyni. Þá ólst og upp í
Kýrholti sonur Guðnýjar, er hún hafði áður átt, Gunnar Haraldsson,
deildarstjóri hjá Kaupfélagi Skagfirðinga. I Kýrholti var og annað
bam Guðnýjar, Fríða Ólafsdóttir, húsfreyja í Súðavík.
Bessi Gíslason naut mikils trausts samferðamanna. Því var eigi kyn
þótt á hann hlæðust margvísleg trúnaðarstörf. Hann var hreppstjóri
1934-1961 og um leið formaður skattanefndar; rækti hann það starf
sem önnur af stakri skyldurækni og jafnvel ekki trútt um að sumum
þætti sem hann gengi óþarflega ríkt eftir því, að rétt væri talið fram til
skatts. Bessi sat í hreppsnefnd Viðvíkurhrepps 1922-1934 og oddviti
1925-1931. Sýslunefndarmaður 1954-1970; yfirúttektarmaður í
Skagafjarðarsýslu, varamaður í jarðamatsnefnd sýslunnar; sat um
hríð í stjórn Varmahlíðarfélagsins. Hann var símstöðvarstjóri og
bréfhirðingarmaður, umboðsmaður Brunabótafélags Islands og
einnig Samvinnutrvgginga. Var í sóknarnefnd og safnaðarfulltrúi um
sinn. Átti sæti í Búnaðarráði meðan sú stofnun var við lýði. Þá eru
ótalin þau trúnaðarstörf, sem tvímælalaust voru Bessa hugfólgnust.