Skírnir - 01.04.1987, Side 143
RITDÓMAR
ÍSLENSK SAMHEITAORÐABÓK
Ritstjóri: Svavar Sigmundsson
Styrktarsjóður Pórbergs Þórðarsonar og Margrétar Jónsdóttur,
Háskóla Islands, Reykjavík 1985.
Oft er ÞVÍ haldið fram að áhugi á málvöndun sé afar útbreiddur í landinu.
Sé það rétt má undarlegt heita hve lítið er til af hentugum bókum handa
þeim sem vilja vanda mál sitt. Ekki er til nokkur bók handa almenningi þar
sem vafaatriðum tungunnar eru gerð ítarleg skil eða þar sem finna má heil-
ræði um hvernig skrifa á góðan og látlausan stíl. Leiðbeiningar um málfar
í útvarpi og dagblöðum eru algengar og eflaust góðra gjalda verðar, en geta
ekki komið í stað handbóka sem grípa má til þegar menn sitja við skriftir.
Lengst af hafa venjulegar orðabækur verið svo til einu hjálpargögnin sem
íslenzkum höfundum hafa staðið til boða. Nú er loksins komin út íslensk
samheitaorðabók. Það má þakka framtaki hjónanna Þórbergs Þórðarsonar,
rithöfundar, og Margrétar Jónsdóttur, sem stofnuðu sjóð til að „styrkja
samningu og útgáfu íslenzkrar samheitaorðabókar, rímorðabókar og ís-
lenzkrar stílfræði“ og gáfu Háskóla Islands árið 1970.
Þessari útgáfu ber mjög að fagna, því að þörfin var vissulega brýn, og
bókin á eflaust eftir að verða mörgum að miklu gagni. Nú er það hins vegar
háttur ritdómara að leggja meiri áherzlu á það sem miður fer en það sem vel
er gert, og mun svo einnig hér. Það kann að virðast ósanngjarnt, einkum
þegar um ávöxt margra ára eljuverks er að ræða, að tíunda einkum ann-
marka þess en ekki kosti. En þegar um orðabók er að ræða verður þó
naumast hjá því komizt, og um þessa orðabók er raunar sérstök ástæða til
þess: í formála hennar segir að ætlunin sé að hún verði endurskoðuð svo
fljótt sem auðið er, og notendur hennar eru beðnir um að koma ábending-
um á framfæri. Þær athugasemdir sem hér fylgja eru því af fyllsta velvilja
gerðar; þær eru fyrst og fremst ætlaðar sem umhugsunarefni sem hafa
mætti til hliðsjónar við undirbúning fyrirhugaðrar endurskoðunar. Þeim
er alls ekki ætlað að vera vísindaleg úttekt á bókinni, heldur verða þær
skrifaðar fyrst og fremst frá sjónarmiði venjulegs notanda. Mér hefur oft
þótt skorta verulega á að höfundar íslenzkra (og fleiri) orðabóka reyni að
setja sig í spor þeirra sem eiga að nota bækurnar og velti fyrir sér hvað þeir
þurfa eða vilja.
Hvers konar orðabók er þá íslensk samheitaorðabók (hér eftir skamm-
stafað IS), og til hvers er hún? I hinum stutta formála ritstjórans, Svavars
Sigmundssonar, er enga vísbendingu að finna um markmið bókarinnar. Því
er eðlilegt að leita til tveggja greina sem hann skrifaði meðan hann vann að