Skírnir - 01.09.1993, Blaðsíða 26
328
SVAVA JAKOBSDÓTTIR
SKÍRNIR
Saungkór fugla
safnaðist híngað,
ok vorvindanna
vængja þytr
samstillti sik þeim,
er þar sinn léku
sí ok æ sætan
svasaðar dans; (]Þ 4. bók bls. 9i)
I Grasaferð gegna útsýnislýsingarnar ofan af fjallinu mikils-
verðu hlutverki. Fyrsta útsýnislýsingin er sem endurómur af
þessari lýsingu Miltons og Jóns á Bægisá á útsýninu ofan úr Para-
dís og þó fært sé til íslenskrar sveitar eru innviðir hinir sömu,
lögð er áhersla á grænar engjar, búsmala á beit, blómstur alls litar,
og fuglasöng eða kvak:
allt var svo kyrrt og blítt yfir að líta, túnin græn og glóuðu í fíflum og
sóleyjum; engjarnar líka grænar, en þó nokkuð ljósbleikari, og sumstaðar
hvítir fífublettir, táhreinir, eins og nýfallinn snjór. Búsmalinn dreifði sjer
um haga og hlíðar, og ekkert var að heyra, nema einstaka lækjarbunu og
árniðinn í dalnum, eða þá stundum fugla, sem flugu kvakandi í loptinu,
ellegar sátu á einhverri hæð og sungu sjer til gamans í morgunkyrrðinni.
(bls. 12)
Þessi mynd hjá Jónasi tengist voninni, en umræður um merkingu
útsýnismyndanna læt ég bíða um sinn.
Klettaskora er þekkt uppgönguleið til Paradísar, og er líklega
kunnust úr Gledileiknum guðdómlega, og bæði hjá Dante og
Milton er farið inn í sjálfan Paradísargarðinn um klettaskoru.
Fjall Hreinsunareldsins í Gleðileiknum guðdómlega er byggt upp
af sjö kletta- eða hamrastöllum og fara verður stall af stalli gegn-
um klettaskorur áleiðis upp fjallið. Um einstigi er að fara og
skoran er þröng og vandfundin, sbr. „því að þröngt er hliðið og
mjór vegurinn, er liggur til lífsins, og fáir eru þeir sem finna
hann“ (Matt. 7:14). I Hreinsunareldinum marka klettaskorurnar
skil milli skírslusyiða og engill eða góðviljuð sál vísar ferðalöng-
unum á þær enda ekki ætlaðar öðrum en þeim sem verðskulda að
halda áfram för. Ferðin um klettaskorurnar verður æ auðveldari
því ofar sem dregur. Verst yfirferðar er skoran við rætur fjallsins í
Hreinsunareldinum, svo þröng og djúp að þeir Dante og Virgill
verða að skríða á fjórum fótum hvor á eftir öðrum. Gljúfrarið og
hamrahlið eru orð sem Guðmundur Böðvarsson notar í þýðingu