Skírnir - 01.09.1993, Blaðsíða 123
SKÍRNIR
SKÍRNISLEIKUR OG FREYSMÁL
425
kennara við Girton College í Cambridge. Bók hennar um efnið,
The Elder Edda and Ancient Scandinavian Drama, kom út árið
1920.
Bertha Phillpotts var að mörgu leyti barn síns tíma. Hún var
undir miklum áhrifum frá hugmyndum Sir James Frazer og hins
svokallaða Cambridge-skóla; fræðimanna eins og Jane Harrison
og Gilberts Murray sem trúðu því að gríski harmleikurinn væri
byggður á grunni fornra árstíðabundinna helgileikja sem snerust
um bardaga, dauða, upprisu og helgibrúðkaup (sjá Harrison
1963, 343-344). Því var haldið fram að svipað mynstur lægi til
grundvallar ýmsum evrópskum og austurlenskum goðsögum og
þjóðsagnaefni (sjá Gaster 1950, 4-33). Þessar kenningar voru að
mestu leyti byggðar á tilgátum og almennum líkum (sjá Friedrich
1983). Blómaskeiði Cambridge-skólans lauk og í kjölfarið féllu
kenningar Berthu Phillpotts í skuggann, en hún hafði fylgt for-
dæmi Gilberts Murray og greint helgisiðamynstrið einkar skýrt í
þeim eddukvæðum sem fjalla um Helga Hundingsbana og Helga
Hjörvarðarson. Að hennar mati voru Helgakviðurnar þó ekki
einar um að geyma leifar fornra norrænna helgileikja. Sama máli
gegndi um samtalskvæði Eddu sem ort voru undir ljóðahætti. I
Skírnismálum mátti, samkvæmt forskriftinni, finna leifar helgi-
leiks er lýsti helgibrúðkaupi, hieros gamos (Phillpotts 1920, 137;
sjá einnig Olsen 1909).
Þrátt fyrir margar ágætar athuganir Phillpotts á formi og ein-
kennum þeirra goðakvæða Eddu með samtalsformi sem ort eru
undir ljóðahætti, misstu fræðimenn smátt og smátt áhugann á
vangaveltum um leikrænan flutning eddukvæða. Þess í stað ein-
beittu þeir sér að textafræði og hinum ritaða texta.2 Jan de Vries
gaf tóninn fyrir viðhorf fræðimanna til Skírnismála, en hann hélt
því fram í Altgermanische Literaturgeschichte að þótt finna mætti
í kvæðinu viss ummerki fornrar frjósemisdýrkunar væri kvæðið
2 Það er fyrst á allra síðustu árum, með auknum áhuga á þjóðlegri og munnlegri
sagnahefð, að fræðimenn hafa aftur gefið gaum að hugmyndum Phillpotts og
fengið áhuga á að kanna hugsanlegar menjar fornra norrænna helgileikja. Sjá
til dæmis á íslandi, Jón Hnefil Aðalsteinsson 1988, 53; Gísla Sigurðsson 1989,
302; og Svein Einarsson 1991, 39-61.