Skírnir - 01.09.1993, Blaðsíða 99
SKÍRNIR
HVAÐ ER UPPLÝSING?
401
frumspeki: markmið hennar eru sifjafrœðileg en aðferðir forn-
minjafræðilegar. Fornmmjafræðilegar, og alls ekki forskilvitlegar,
því ekki verður leitast við að finna almennar formgerðir allrar
mögulegrar þekkingar eða siðrænna athafna, heldur að vinna úr
orðræðunni - sem tjáir það sem við hugsum, segjum og gerum -
sem sögulegum viðburði. Og gagnrýni þessi verður sifjafræðileg
þar sem hún mun ekki álykta af því hvernig við erum, hvað okk-
ur er ómögulegt að gera eða vita; hún mun laða fram úr vitneskj-
unni um að við erum mótuð af ytri aðstæðum, tilviljunum,
o.s.frv., möguleikann á að hætta að vera, gera og hugsa það sem
við erum, gerum og hugsum.
Hún leitast ekki við að skapa loks skilyrði fyrir vísindalega
frumspeki; hún leitast við að þoka áfram, eins langt og á eins víð-
um grundvelli og mögulegt er, hinu óskilgreinda starfi frelsisins.
2. En til að þetta verði ekki einvörðungu fullyrðing um frelsi
eða innihaldslaus draumur um það, þá tel ég að þessi sögulega,
gagnrýna afstaða verði einnig að einkennast af tilraunastarfi. Eg á
við að þessi vinna, sem unnin er við endimörk okkar, eigi annars
vegar að ljúka upp sögulegu rannsóknasviði en hins vegar að
glíma við raunveruleikann og líðandi stund, bæði til að finna þá
staði þar sem breytingar eru mögulegar og æskilegar og til að
skilgreina nákvæmlega það form sem þessar breytingar eiga að
öðlast. Þetta jafngildir því að segja að þessi sögulega verufræði
um okkur sjálf eigi að vera fráhverf öllum áætlunum sem kenna
sig við róttækni og þykjast hafa almenna skírskotun. Við vitum af
reynslunni að allar áætlanir um að brjótast út úr kerfum líðandi
stundar í nafni heildarhugsjónar um annað samfélag, annan hugs-
unarhátt, aðra menningu, aðra heimssýn, hafa aðeins endurvakið
hinar háskalegustu hefðir.
Mér hugnast betur þær afmörkuðu breytingar sem hafa átt sér
stað á tveimur síðustu áratugum á nokkrum sviðum og snerta
hegðun og hugsunarhátt, breytta afstöðu til valdbeitingar í sam-
skiptum, til samskipta kynjanna, til geðveiki og sjúkdóma; mér
líkar jafnvel betur við þessar tiltölulega einangruðu breytingar,
sem hafa orðið þegar tvinnaðar hafa verið saman söguleg greining
og hagnýt afstaða, en þau loforð um nýjan mann sem hin verstu
stjórnmálakerfi hafa klifað á alla tuttugustu öldina.