Skírnir - 01.09.1997, Blaðsíða 226
KJARTAN ÁRNASON
Staður X í Tilverunni
Drepið á fáein atriði í skáldskap
Jóhanns Hjálmarssonar
síðastliðið HAUST VORU 40 ár frá því Jóhann Hjálmarsson stóð með
fyrstu bók sína, Aungul í tímann (1956), nýprentaða og ilmandi í hönd-
um og var orðinn skáld, aðeins 17 ára gamall. Á þessum árum eru ljóða-
bækur hans orðnar 14 að tölu, auk fjögurra safna ljóðaþýðinga, rits um
íslenska nútímaljóðlist og bóka sem hann hefur valið efni í, einn eða með
öðrum, í allt 22 verk.1 Hann hefur ennfremur ritað um bókmenntir í
blöð og tímarit síðan fyrir 1960, lengst af sem bókmenntagagnrýnandi
Morgunblaðsins. Nafn Jóhanns Hjálmarssonar hefur því óneitanlega
borið nokkuð á góma í íslenskri bókmenntaumræðu á umliðnum fjórum
áratugum, þarsem hann hefur ýmist verið í stöðu skoðandans eða hins
skoðaða.
Aungull í tímann bar býsna greinileg þroskamerki, enda var bókinni
afar vel tekið af gagnrýnendum og þótti gefa góð fyrirheit. Andi Jóns úr
Vör svífur víða yfir vötnum, bæði í þeim ljóðum sem sprottin voru úr ís-
lenskum veruleika, en ekki síður hinum sem báru með sér alþjóðlegri
blæ. I bókinni voru fáein háttbundin ljóð, þau einu í gjörvöllu höfundar-
verki Jóhanns, en laglega ort og sýndu að skáldið var ekki síður heima í
rótgróinni skáldskaparhefð en frjálsum háttum samtímans. Ymis yrkis-
efni bókarinnar voru reyndar af þeim toga sem vænta mátti hjá unglingi,
sum í anda þjóðkvæða, um álfa og dulmögn náttúrunnar, önnur um
þýða vinda, græna skóga og blóm, víða með afar rómantískum einkenn-
um. En í bland við ljóð sem sóttu efni í þjóðlega hefð voru all mörg önn-
ur ljóð með alþjóðlegu svipmóti, annaðhvort sviðsett í hlutlausu um-
hverfi eða beinlínis erlendis: ljóðmælandinn ferðast í lest eða ávarpar
fólk af framandi kynstofni; önnur ljóð fjalla um stöðu mannsins í veröld-
inni, kúgun, stríð eða fátækt.
Um miðjan sjötta áratuginn er Jóhann líklega þegar farinn að kynna
sér erlendan skáldskap, en fyrsta þýðingasafn hans, Af greinum trjánna,
kom út 1960. Leiða má líkur að því að alþjóðahugsun Walts Whitman,
sem er eitt þeirra skálda sem ljóð eiga í safninu, hafi haft áhrif á skáld-
skaparviðhorf Jóhanns að þessu leyti, þó eftilvill fremur til að ýta undir
1 Aftanmáls er listi yfir ljóðabækur, smáprent og ljóðaþýðingar Jóhanns Hjálm-
arssonar, ásamt útgáfuári verkanna.
Skírnir, 171. ár (haust 1997)