Skírnir - 01.09.1997, Blaðsíða 237
SKÍRNIR
STAÐUR X í TILVERUNNI
511
virðing þess fyrir trúarbrögðum gestgjafanna snúist uppí svolítinn
fjálgleika, tilaðmynda í ljóðinu „Til Maríu". Mælandinn er staddur í
kirkju andspænis styttu af Maríu mey og fyllist lotningu: „Þú stendur
ein / á steini / á klöpp / huga míns. / Ég lýt höfði / um leið og ég hverf út
um dyrnar“, segir í lok ljóðsins. En þarna bregður einnig fyrir hug-
myndinni um einingu guðs og manns: verur sem krjúpa hljóðar og biðja
um miskunn eru „skapaðar / í líkingu guðs“ (1967, 30-31). En sá guð
sem fram kemur í ljóðum bókarinnar er ekki hinn venjubundni guð
kirkjunnar, í „steinhvelfingu drottins / fást engin svör“, segir í ljóðinu
„Tímanum" (1967, 27). Sá guðdómur sem birtist í Nýju laufi, nýju
myrkri er ýmist guð eða góður engill eða bara „eitthvað í trjánum og sól-
skininu", „eitthvað í brjóstum okkar allra, sem við ráðum ekki við“,
hann er „eitthvað sem við megum ekki glata“.
Návist þessa guðdóms er sterk í bókinni, ánþess hann sé þó til sí-
felldrar umræðu; hann kemur fyrir á svipaðan hátt í Athvarfi í
himingeimnum (1973) og raunar öllum bókum skáldsins, þótt mynd
hans sé ekki eins skýr og afdráttarlaus framan af ferlinum. Ef lýsa ætti
Athvarfi í himingeimnum, með fáum orðum, mætti segja að hún sé hug-
leiðing um tíma og fjarlægðir, hverfulleikann og hið óendanlega. Um leið
tjáir hún sambandið innávið, inní sjálfan sig í leit að guðsneistanum.
Þegar ljóð bókarinnar verða til er maðurinn búinn að marka sín fyrstu
spor á annarri stjörnu, og þetta kallar fram spurningar hjá skáldinu um
afstöðuna til hins stóra, til guðsins í alltumlykjandi alheimi, og um smæð
mannsins í þessum sama alheimi. „En hve lítill ertu / og veik slög hjarta
þíns“, segir í „Appolon nýja“ (1973, 9), upphafsljóði bókarinnar:
Samt fyllir þessi hjartsláttur
tárvota jörð,
gefur henni birtu
ljós til að lifa af,
ljós til að deyja af?
„Guð greindi ljósið frá myrkrinu.“
Nú hljóma þessi orð
langt úti í dimmum geimnum.
Mannkynið telur sig hafa náð til nýrra hæða, sigrað fjarlægðir sem áður
var óhugsandi að ferðast um, byggt tæki og tól sem ekki áttu sína líka í
tæknilegri fullkomnun. En hvar er almættið í þessu öllu saman? gæti ver-
ið spurning skáldsins.
Leitin að guði og leitin að sjálfum sér heldur áfram, hún tekur ekki
enda fremur en himingeimurinn. Endalaus, alltumlykjandi fyllir hann útí
okkur, en um leið fyllum við útí hann. Allir hlutir, öll fyrirbrigði verald-
arinnar eru speglar sem við sjáum okkur sjálf í; oft viljum við líta undan,
oft viljum við burt.