Skírnir - 01.09.1997, Blaðsíða 246
520
SVAVAR HRAFN SVAVARSSON
SKÍRNIR
þar sem latína var alþjóðamál fræðimanna. í formálanum er þó ekki vik-
ið (alltént ekki beint) að muninum á því að semja verk á latínu og ein-
hverri þjóðtungu samtímans eins og íslensku, en þessi munur hlýtur að
vera mikilvægur til skilnings á sérstöðu nýlatneskra bókmennta. Þegar
verk eru framreidd á klassískri latínu handa lærðum heimi en ekki á ís-
lensku er að einhverju leyti hugsað á latínu en ekki á íslensku, eins og til
dæmis tíðar vísanir til klassískra höfunda sýna. Á einum stað er vísað í
Cicero til nánari útskýringar á einhverju atriði, á öðrum stað í Caesar, og
stundum klykkt út með ljóðlínu eftir Hóras, og ekki sjaldnar eftir
Ovidius.4 Þetta eru rómverskir höfundar sem sömdu verk sín á latínu,
ekki íslenskir á íslensku. Málheimurinn er latneskur. Spurningin er: hvað
fylgir því að hugsa og skrifa á latínu?
Víkjum fyrst (heldur óvænt) að börnum eða öllu heldur útskýringum
handa börnum. Það sem virðist vera býsna mikilvægt hverjum þeim sem
hyggst útskýra eitthvað fyrir börnum er tengingin „eins og“. Flestir sem
hafa átt einhvern félagsskap við börn kannast vafalaust við hversu mikill
skýringarmáttur felst í þessari tengingu. Með henni tengir maður venju-
lega eitthvað sem barnið þekkir saman við eitthvað sem barninu er fram-
andi og þarfnast skýringar. Þessi tiltekna skýringaraðferð sýnist mér vera
til merkis um almennari aðferð sem við beitum oft hvort heldur í leit
okkar að nýrri þekkingu eða útskýringum okkar á einhverju því sem
stuðlar að nýrri þekkingu hjá öðrum.5 Hún er sú að bæta nýrri þekkingu
við, og skýra hana út frá því sem við þekkjum á einhvern hátt fyrir, það
er með tilvísun til einhverrar þekkingar sem er til fyrir, og jafnframt með
hliðsjón af þeim hugtakaskilningi sem við búum við. Það er til dæmis
grundvallarskilyrði í öllum góðum útskýringum að útskýrandinn noti
táknmál sem geri honum kleift að tryggja skilning áheyrenda. Þannig er
eðlilega mikilvægt að framreiða útskýringu sína á tungumáli sem skilst.
Ef við viljum kynna skoðanir okkar útlenskum stallbræðrum, skrifum
við hvorki né tölum á íslensku. Það var einmitt af þessum sökum sem
lærdómsmenn á borð við Arngrím Jónsson og Finn Jónsson skrifuðu sín
rit á latínu; til að uppfylla grundvallarskilyrði fyrir því að mál þeirra væri
skilið. Eins og kemur fram í grein Sigurðar Péturssonar (bls. 102-103)
vakti tímamótarit Arngríms Jónssonar, Brevis Commentarius de
Islandia, sem kom út í Kaupmannahöfn 1593, svo mikla athygli að fimm
4 Um tíðni tilvísana til klassískra höfunda hjá mönnum 17. og 18. aldar, sjá
Veraldarvefinn (http://www.uib.no/neol.html). Sérstaklega hefur verið fjallað
um tilvísanir til Ovidiusar í: Sigurður Pétursson, „Ovid in Iceland", í P. Janni,
D. Poli, C. Santini (ritstj.), Cultura Classica e Cultura Germanica Settentrio-
nale (Macerata: Atti del Convegno Internazionale di Studi Universitá di
Macerata, Facoltá di Lettere e Filosofia, 1985) bls. 53-63.
5 Þetta viðhorf er all-aristótelískt, sjá T. H. Irwin, Aristotle’s First Principles
(Oxford: Clarendon Press, 1988) bls. 13-21.