Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Qupperneq 40
Bjöm Magnússon
heldur svo að skilja, að öll þau atriði, sem hér voru nefnd, væru áður
óþekkt með öllu. Hugmyndina um hinn nálæga Guð mátti finna í boðskap
spámannanna, sem fundu kraft hans knýja sig til að bera honum vitni.
Föðurheitið var ekki heldur óþekkt um Guð, þótt það hefði sjaldan þann
nána, persónulega blæ, sem það fékk hjá Jesú. Og eingyðistrúin var orðin
rótfest meðal Gyðinga. En þetta varð allt nýtt hjá honum. Hann fann á
alveg óvenjulegan hátt dl nálægðar Guðs. Hann veit sig standa í sérstak-
lega nánu sambandi við föðurinn. Og enda þótt honum sé ljós sérstaða sín
í þessu efni, þá telur hann alla eiga beinan aðgang að himneska föðurnum
með bænir sínar. Og Guð hugsar um þá alla („veit, að þér þarfnist alls
þessa”, Mt. 6,32). Hann talar um mennina sem syni Guðs. í því felst
„nálægð Guðs í siðferðilegri og andlegri reynslu þeirra ” (Moffatt, bls.
97).
Þá er föðurhugtakið sérstaklega ríkt að innihaldi í boðskap Jesú. „Nýr
var boðskapur hans um föðureðli Guðs: ekki föðurnafnið um Guð og ekki
þekking siðlegra eiginleika Guðs yfirleitt, heldur það, að hann leit á
föðurelskuna sem ríkjandi eiginleika í eðli Guðs, og sú vissa, að vegna
þessarar elsku giltu ekki réttarfarsreglur í samskiptum Guðs og manna,
heldur siðgæðisreglur, eins og í viðskiptum foreldra og barna (Wendt,
bls. 285). „Jesús heldur hugmyndinni um föðurinn og dýpkar hana um
leið, um Guð sem föður ekki aðeins þjóðfélagsins, heldur líka einstak-
lingsins, og einstaklingsins sem manns en ekki aðeins hins einstaka
Israelsmanns. Hann er hinn konunglegi faðir mannanna, ekki af því að
hann skapaði þá, né heldur af því að hann drottnar yfir þeim, heldur
vegna þess, að þeir standa í siðferðilegu skyldleika sambandi við hann og
eru honum háðir” (Moffatt, bls. 101).
Jesús heldur að sjálfsögðu, jafnframt þessum nýju þáttum í guðsmynd
hans, þeim sígildu atriðum, sem fólust í guðstrú þjóðar hans. Meðal
þeirra var trúin á hinn eina, heilaga Guð. Þessa gætir að vísu ekki eins
mikið í kenningu hans eins og hins, sem nýtt er, og er það eðlilegt. „Hans
var að kenna og boða það, sem ekki lá í augum uppi, heldur var hans
eigin uppgötvun og opinberun, um að einmitt þessi hinn heilagi væri
himneskur faðir” (Otto, bls. 111). Heilagleikinn „das ganz anders sein”,
hinar ströngu siðgæðiskröfur, refsidómur þess, „sem hefur vald til að
kasta í helvíti” (Lk.12,5), það var allt kunnugt þjóð hans. Um það gilti
einnig, að hann var ekki kominn til að niðurbrjóta, heldur til að uppfylla.
Og hið nýja, sem hann fyllti upp í þessa gömlu mynd með, var innihald
föðurhugtaksins. Og það innihald má birta með einu orði: kærleikur.
Kærleikur Guðs er hinn stjórnandi eiginleiki hans. Hið „nýja réttlæti”,
eins og það birtist hjá Guði, er „gæska, sem er ofar réttlætinu” (Weinel,
Theologie, bls. 137, sbr. Mt. 20, 1-15). Kærleikur hans er algjör, því
hann nær jafnt til allra, án greinarmunar (Mt. 5,45-48). Hann fyrirgefur,
því að það er eðli hans. Hann er reiðubúinn til að taka á móti glataða
syninum; faðirinn bíður eftir honum og hleypur á móti honum, þegar
hann sér hann álengdar. Og ef vér förum að dæmi kristinna manna á
öllum öldum, og lítum svo á, að í lífi Krists hafi dýpsta eðli Guðs birst
38