Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Page 54
Bjöm Magnússon
líðandi stund, og siðgæðiskröfur hans verða engan veginn skiljanlegri né
eðlilegri, sé litið á þær sem bráðabirgðasiðaboð (interims-etik).
Um hitt er aftur ekki neinum blöðum að fletta, að frumkristnin lifði í
sterkri eftirvæntingu eftir heimsslitum og endurkomu Krists, eins og fyrr
hefur verið bent á. Það sést glöggt hjá Páli, í almennu bréfunum og
Opinberunarbókinni. En sú trú kulnaði, eftir því, sem lengra leið fram.
Meðan kirkjan átti við ofsóknir að búa, hélst þó enn við nokkuð af hinni
gömlu trú á bráða lausn frá hinni „yfirstandandi vondu öld”, en eftir að
kirkjan varð ríkiskirkja, snúast vonirnar meira og meira að fullkomnun
sælunnar í öðru lífi. En þó hefur alltaf haldist við innan ýmissa flokka
vonin um nálæg heimsslit og endurkomu Krists, og alltaf blossað upp með
meira krafti, þegar eitthvað hefur þrengt að þjóðunum (Aðventistar o.fl).
Gagnstætt þeirri skoðun, sem kemur fram í heimsslitavonunum, að
þessi heimur sé illur og ekki hæfur vettvangur guðsríkis, hefur jafnan
verið uppi í kristninni önnur skoðun, að heimurinn væri, þrátt fyrir
ófullkomleika sinn, það svið, þar sem Guð framkvæmdi vilja sinn og
stofnsetti ríki sitt. Dæmisögur Jesú um guðsríkið benda í þá átt. Hann
líkir því við sáðkorn, sem grær og vex, við súrdeig, sem sýrir allt deigið.
í niðurlagi Matteusarguðspjalls er skipunin um að gera allar þjóðir að
lærisveinum, og í þeim anda hefur jafnan verið starfað síðan að
útbreiðslu kristninnar. Jesús var ekki heldur neinn heimsflóttamaður.
Hann gerir grein fyrir muninum á sér og Jóhannesi skírara: „Jóhannes
kom, og át hvorki né drakk”. „Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn
segja: Sjá átvagl og vínsvelgur” (Mt. 11.18n). Hann hefur opin augu fyrir
fegurð náttúrunnar. Siðbótarmennirnir sáu þetta einnig. Þeir afnema hið
tvöfalda siðgæði kaþólsku kirkjunnar, þar sem það var talið æðra
siðgæði, að halda sig frá heiminum (klausturheit, ókvæni presta), og
sérstaklega hefur endurbætta kirkjan lagt ríka áherslu á helgi vinnunnar
og hinnar veraldlegu starfa. Á síðustu tímum má sjá merki um hið sama
hjá hinum japanska afreksmanni Kagawa (Axling, 38,150).
En jafnframt því, að viðkenna, að þessi heimur, sem vér lifum nú í, sé
svið guðlegs tilgangs þá hefur kristindómurinn jafnan haft opin augun
fyrir fallvaltleik hinna veraldlegu gæða, og séð uppfyllingu
framtíðarvona sinna rætast fyrst í öðrum heimi. Jesús brýnir fyrir
mönnum fallvaltleik auðæfanna, (Lk. 12,16nn, Mk. 4,19; 10,23nn), og
hvetur þá til að safna sér auðæfum á himni (Mt. 6,19;) og nota sér
mammon ranglætisins til að gera sér vini með í eilífa lífinu (Lk. 16,9).
Heimurinn, hinn efnislegi, er þannig ekki takmark i sjálfum sér, heldur
eitt stig á leiðinni að takmarkinu. „Heimurinn hefur tilgang sinn í
kærleika Guðs, sem stefnir að því að gera guðsríkið að veruleika.
Heimurinn er tæki að ná þessu marki, ekkert nema tæki, en líka sem tæki
raunverulega nauðsynlegur” (Háring, Dogm, bls. 363). Heimurinn er
takmarkaður og endanlegur, en guðsríkið eilíft og ótakmarkað. En hinn
52