Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Page 89
Sérkenni kristindómsins
sem persónulega afstöðu Guðs til mannsins. Náðin og miskunnsemin
runnu saman. En þrátt fyrir það héldu siðbótarhöfundarnir við
kenninguna um fyrirhugaða sælu og vansælu, sem þó hélt ekki velli í
lúthersku kirkjunni, því náðin var ekki talin ómótstæðileg. Fullkominn
lausn var ekki fengin á vandamálinu um náðina og viljann, endar var öll
röksemdarfærslan öðrum þræði bundin við hinar kaþólsku hugmyndir um
náðina.
Sá grunntónn, sem heyra má í gegn um allar þessar misjöfnu tilraunir
mannanna til að skýra fyrir sér, hvað væri náð Guðs og hvernig hún
verkaði, er, að kærleikur Guðs er afl, sem verkar á mannlífið, án
tilverknaðar mannsins eða verðskuldunar. „Að minnast á mannlega
verðskuldun gagnvart Guði er að leiða inn í umræður um hið trúarlega
atriði, sem er andstætt trúnni” (Aulén, 278). Vér notum þannig orðið náð
Guðs til að tákna tvær hliðar hins guðlega kærleika eins og hann birtist
gagnvart manninum: Að hann er óverðskuldaður af manninum, og að
hann verkar að fyrra bragði, án tilverknaðar mannsins (sbr. I. Jóh. 4,19).
Þetta er samhljóða reynsla allra þeirra, sem snortnir hafa orðið af anda
kristindómsins. Á sumum tímum hefur verið lögð svo einhliða áhersla á
þetta, að ekkert hefur verið lagt upp úr vilja eða viðleitni mannsins sjálfs.
Síðasta dæmi þess er stefna Barths og fylgjenda hans. „Vér mótmælendur
lítum á trúna sem það, að maðurinn tekur við og grípur náð Guðs, fyrir
tilverknað sjálfrar náðarinnar, þar sem náðin er og verður náð Guðs —
án þess að maðurinn, jafnvel á hinn minnsta hátt geti ráðið yfir náðinni”
(Barth: Die Theologie und die Kirche, bls. 295, cit. Scharling 22). „Trú
og opinberun tákna skýra neitun þess, að það sé nokkur vegur til frá
manninum til náðar Guðs, kærleiks og lífs. Bæði orð láta í ljós, að hér
komi aðeins til greina vegur Guðs til mannanna” (Barth: Das Wort Gotts,
bls. 8, cit. Scharling 23). Sú skoðun getur ekki samrýmst kenningu Jesú
um gildi mannsins og ábyrgð hvers manns á lífi sínu og velferð. Nær hinu
rétta mun Páll hafa komist er hann segir: „Vinnið þér nú að sáluhjálp
yðar með ugg og ótta ... því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að
vilja og að framkvæma” (Fil. 2,12n). Þannig verða mennirnir
samverkamenn Guðs um sköpun þess mannfélags, sem er að vilja hans.
„Guð gerir manninum kunna nærveru sína með ómótstæðilegri
sannfæringu í þeirri viljaframkvæmd, að maðurinn gefur sig
skilyrðislaust á vald hinu æðsta sem hann þekkir” (Brown, God, III).
En einnig í hinni gömlu kenningu kirkjunnar, að náð Guðs væri fólgin
í krafti, sem væri veitt inn í mannssálirnar, felst nokkur sannleiki, og
fyllilega í samræmi við boðskap Jesú. Sérstaklega má benda á fyrirheitið
um kraftinn frá hæðum (Lk. 29,49), enda þótt það hafi verið sett í
samband við fyrirheitið um andann, og það með réttu. Því andi Guðs er
einmitt hinn guðlegi kærleikskraftur starfandi í manninum. Það er sá
kraftur, sem gefur manninum mátt til að sigra hið lægra eðli sitt, og
fylgja fram hinu góða, sem hann vill, og stilla líf sitt í samræmi við það
fegursta og besta, sem hann þekkir. En um það munum vér ræða betur, er
87