Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Page 138
Bjöm Magnússon
3) Nýtt líf
Siðgæðishugsjón Jesú er líf, en ekki líf í hvaða formi sem vera skal, eins
og skýrt kemur fram í því, sem hér hefur verið sagt að framan. Lífið,
sem Jesús boðaði, var nýtt líf. „Gjörið iðrun” var fyrsta krafa hans, sem
guðspjöllin greina ífá (Mk. 1,15). Glataði sonurinn gekk í sig, tók sig upp
og fór til föður síns. „Nema þér snúið við og verðið eins og börnin
(Mt. 18,3). „Þér hafi heyrt, að sagt var, ... en ég segi yður” (Mt. 5).
„Eftir öllu þessu sækjast heiðingjarnir ... En leitið fyrst ríkis hans og
réttlætis þess” (Mt. 6,32n). Öll þessi ummæli benda til þess, að það var
nýtt siðgæði, sem hann boðaði, nýtt líf, sem birtist í nýju réttlæti. Það er
réttlæti guðsríkisins. Að vísu mun vafasamt að Jesús hafi sjálfur notað
orðið réttlæti í kenningu sinni, því að það finnst aðeins í Matteusar-
guðspjalli, og virðist alls staðar vera viðbót (sbr. t.d. Mt. 6,33 og Lk.
12,31, Weinel: Theologie, bls. 94n). En Matteus hefur þá a.m.k. fest
orðið í kristilegri málvenju, og hvergi kemur skarpar í ljós munurinn
milli hins gamla og nýja siðgæðis, en í orðum hans: „Ef réttlæti yðar
tekur ekki langt fram réttlæti fræðimannanna og Faríseanna, komist þér
alls ekki inn í himnaríki” (5,20).
Sá reginmunur, sem er á réttlæti guðsríkisins og réttlæti „fræði-
mannanna og Faríseanna” siðgæði gamla tímans, er fólginn í því, að
siðgæði gamla tímans er þvingað fram af ytri boðum, sem menn fylgja af
ótta eða venju eða hlýðni við hið gamla eða til að viðhalda hinu ytra
skipulagi mannfélagsins, en eiga enga innri stoð í skapgerð mannsins eða
vilja, heldur finnur hann til þeirra sem þvingandi hafta, er hindra frjálsa
breytni hans, og hann vill stöðugt vera laus við. En siðgæði guðsríkisins
er fólgið í frjálsri breytni eftir vilja Guðs, af því að maðurinn hefur gert
vilja hans að sínum vilja „krossfest holdið með ástríðum þess og girndum”
(Gal. 5,24), er orðinn ný skepna, og lætur guðsandann stjórna öllum
gerðum sínum (sbr. II. Kor. 5,17). Siðgæði hans kemur innan frá, sem
ávöxtur hins hreina hugarfars. „Hugsjón Faríseanna er maðurinn, „sem
hugsar um lögmálið nótt og dag.” Hugsjón Jesú er hjarta, sem er al-
hreint” (Weinel: Theologie, bls. 79). Siðgæði gamla tímans er hin
smásálarlega fylgd við bókstafinn, án þess að skeyta um þann anda, sem
að baki liggur. Þeir, sem því fylgja, eru því hræsnarar, sem sía
mýfluguna, en svelgja úlfaldann, gjalda tíund af hverjum smámunum, en
skeyta ekki um það, sem mikilverðast er í lögmálinu: réttvísina og
miskunnsemina og trúmennskuna (Mt. 23,23n, sbr. Lk. 11,42). Þeir beita
enda brögðum og rökkrókum til að komast í kring um það að uppfylla
boðorðin (Mk. 7,6nn). En það er hugarfarið, sem allt veltur á. Innan frá
koma hinar vondu hugsanir, sem brjótast út í hatri eða munaðarlífi eða
hræsni. Það kemur ljóst fram í dæmunum, sem fjallræðan flytur um hið
nýja siðgæði, samanborið við hin gömlu boðorð (Mt.5,21-48). Þar er alls
staðar dæmt út frá því hugarfari, sem leiðir til lögmálsbrota. Hér ber því
að sama brunni og áður, að þar er hreinleiki hugarfarsins, sem er
grundvöllurinn undir siðgæði guðsríkisins.
136