Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Qupperneq 140
Bjöm Magnússon
siðgæðisvitund mannkynsins þroskast, og að á því stigi, sem hver maður
er staddur, er hann bundinn við þær siðgæðishugmyndir, sem hann veit
sannastar og réttastar. Að ætla sér að rjúfa þær reglur, sem manninum
eru helgar, hvort heldur er fyrir venju eða ótta eða hlýðni við hið gamla
eða vegna hins félagslega skipulags, er að fremja ofbeldi gegn eðlilegri
framþróun siðavitundarinnar og drýgja synd gegn því, sem manninum er
heilagt, og þar með að bíða tjón á sálu sinni. En það er himinvíður munur
milli þess siðgæðis, sem þannig er bundið af ytri lögmálsboðum, og hins
frjálsa siðgæðis guðsríkisins. Siðgæði guðsríkisins er nýtt líf, nýtt
fyrirbrigði á jörðu.
í þessu sambandi er rétt að taka til athugunar aðra mótbáru, sem ffam
kemur gegn því, að Jesús hafi boðað nýtt siðgæði, sem laust væri við hinn
þrönga sjónhring lögmáls Gyðinga. Hún er sú, að Jesús hafi þráfaldlega
notað launahugmyndina, og hvatt menn til að breyta rétt, til þess að fá
laun fyrir. Sé þessi athugasemd að öllu réttmæt, þá hlýtur að vera
alvarleg tvískipting í siðakenningu Jesú. En einnig hér leysist ósamræmið
upp, sé vel að gætt. Það er að vísu rétt, að Jesús talar oft um laun og
endurgjald (Mt. 6,1.,4.,6.,18, 10,41, 20,lnn, Mk. 9,41). Er það ekki
heldur óeðlilegt, eins og endurgjaldshugmyndin var rík í Gyðingdómnum,
að hann noti það orðalag, en í því felst þó engan veginn, að maður eigi að
fremja góðverk sín, til þess að hljóta laun fyrir, hvorki af mönnum, né
heldur „á himni”. Þegar Jesús segir, að menn muni hljóta laun fyrir
breytni sína, þá lýsir hann staðreynd, án þess að hana beri að skoða sem
hvatningu (motiv) hinnar réttu breytni. „Þrátt fyrir orð eins og „laun
yðar eru mikil á himni”, mundi það vera al-rangt að segja að Kristur hafi
mælt með dyggðugu líferni sem ágóðafyrirtæki” (Inge, Ethics, bls. 75).
Jesús mælir berlega á móti því, að menn fremji réttlæti sitt til að sýnast
fyrir mönnum, og segir, að þeir, sem það geri, hafi þegar tekið út laun
sín, sem eru ekki annað en það lof, sem þeim tekst að ávinna sér af
mönnum (Mt. 6,lnn). Annað bera þeir ekki úr býtum. Breytni þeirra er
ekki runnin úr hugskoti þeirra sjálfra, því setur hún ekkert spor í
skapgerð þeirra, nema til að festa þá í hræsni þeirra. En þeir, sem fara að
orðum Jesú, og fremja réttlæti sitt í leyndum, ekki til að sýnast, heldur af
innri þörf, þeir hljóta laun fyrir „í leyndum”, án þess að þeim sé það
sjálfum ljóst, að um nokkur laun sé að ræða; en launin eru þau, að
skapgerð þeirra mótast til meiri festu í því að lifa sjálfkrafa samkvæmt
vilja Guðs. í íslensku biblíuþýðingunni er þýtt: „faðir þinn, sem sér í
leyndum, mun endurgjalda þér” (Mt. 6,4.,6.,18). Hér liggur alveg jafn-
nærri að þýða: „faðir þinn, sem sér, mun endurgjalda þér í leyndum”
(sbr. Schriften d.N.Tm. I. bls. 273), og sú þýðing nær betur anda
fjallræðunnar og allrar kenningar Jesú, því að Jesús brýnir yfirleitt fyrir
áheyrendum sínum að gera ekki góðverk sín í launaskyni, heldur af innri
þörf þess kærleika, sem ekkert má aumt sjá. „Jesús hefur ekki heimtað
með þessum orðum (Mt. 6,2-4) ölmusugjafir í meinlætaskyni, heldur er
það hinn hreini tilgangur, sem hann krefst, þegar menn gefa ölmusur,
eins og allir guðræknir Gyðingar gerðu” (Weinel, Theologie, bls. 59).
138