Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Side 24
22
MÚLAÞING
við nú greitt niður dalinn, en þó var farið að setja kulda að Stefáni
þegar heim að Skuggahlíð kom, því hann var allmikið hrakinn.
Þegar inn í hlýjuna kom fór hann úr þeim fötum sem eitthvað höfðu
blotnað og í þurr föt. Því næst gaf eg honum eitt staup af koníaki, þó
að hann vildi það helst ekki, því hann kvaðst ekki vera áfengismaður.
Eg sagðist ekki vera það heldur, en eg notaði þetta sem læknislyf þegar
á þyrfti að halda og mér reyndist það vel. Stefán hresstist fljótt og varð
ekki meint af ferðinni þó hann væri heldur óvanur svona hrakningum
á ferðalögum sínum. En það skal tekið fram að húsið sem hann kom
inn í var vel hlýtt. Hestinum eða mér varð ekki heldur meint af ferðinni,
hesturinn fór fljótt í sitt hús og það var hlýtt, en eg í mitt búskaparstaut
svo sem eg var vanur, en þó ekki fyrr en undir kvöld þegar eg var
búinn að fylgja Stefáni út að Skorrastað til kennarans, Arnþórs Árna-
sonar.
Eins og áður var sagt, að Stefán teldi sig eiga erindi við mig, þá var
það annað og meira en að koma á móti honum á Oddsskarðsleið.
Hann var þá námsstjóri hér á Austurlandi og var nú í eftirlitsferð. Eg
var þá hreppsnefndaroddviti hér og þess vegna vildi hann tala við mig
um fræðslu barnanna.
Undanfarin ár hafði risið deila milli skólanefndar hreppsins ásamt
kennara annars vegar og barnaeigenda á Barðsnesbæjum hins vegar
um fræðslu barna þar á bæjunum. Þessi deila hafði á engan hátt snert
hreppsnefndina, en í þessum hreppi var miðað við farkennslu og 10 -
14 ára börn sem skólaskyld. Reynt var að sameina sem flest börn á
einn stað til að njóta kennslunnar. Ungmennafélagið Egill rauði var
þá búið að byggja hús nálægt miðri sveit hér og var það hús fengið til
að kenna í því og reynt að láta öll börn hér í norðursveitinni ganga
þangað daglega. En fyrir sunnan fjörðinn voru flest börn á Barðsnes-
bæjunum og nærri eins mörg og í norðursveitinni. Óskuðu þá þeir,
sem fyrir sunnan fjörðinn bjuggu, að öll börn fengju jafnlangan
kennslutíma, þrjá eða þrjá og hálfan mánuð í hvorum stað. En svo
var mál með vexti að kennarinn var fjölskyldumaður og bjó í leiguhús-
næði úti í Neskaupstað, gekk daglega inn í sveitina til að kenna eða
notaði farartæki eftir því sem hentaði hverju sinni. Þegar hann kenndi
fyrir sunnan fjörð varð hann að vera fjarri heimili sínu og vafasamt
að komast heim á helgum, því yfir sjó er að fara og helgin þá ekki
nema einn dagur. Fræðslumálastjórinn var búinn að senda tvo menn
hingað árin 1940 og 1941 til að ræða við skólanefnd, kennara og barna-
eigendur fyrir sunnan fjörðinn án þess að fullt samkomulag næðist.