Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Síða 34
32
MÚLAÞING
viss um að þá yrði umsvifalaust lagt á hesta og mér fylgt alla leið heim,
en það vildi ég ekki. Ég var búin að vera í tvo daga á Stapa og að
morgni var von á Súðinni, hún var í strandferð á austurleið. Með
hryggð í huga ákvað ég að fara með henni austur á Djúpavog.
En heppnin var ekki búin að yfirgefa mig. Um kvöldið er hringt til
mín utan frá Höfn og þar er þá kominn maður, sem ég vissi engin deili
á, og segist vera að flytja ofan af Héraði og hingað suður, en þurfi að
koma tveimur hestum til baka. Hann segir að ég megi sitja á þessum
hestum austur að Berufirði, ef ég vilji sjá um að þeir komist þaðan að
Höskuldsstöðum í Breiðdal. Hafið þið heyrt annað eins? Það var
áhyggjulaus ferðalangur sem lagðist til svefns á Stapa þetta kvöld.
Daginn eftir þurfti ég að nálgast hestana hans Eiríks Vigfússonar,
en svo hét maðurinn.
Þegar átti svo að leggja af stað í ferðina þótti hlýða að Jón á Stapa
kæmi með mér austur yfir Almannaskarð. Hann kom mér í hendur
góðra manna á Þorgeirsstöðum í Lóni og lét þá lofa því að fylgja mér
yfir Jökulsá um kvöldið, því að ráðgert var að gista í Svínhólum.
Það var auðsótt mál að fá gistingu þar. Áður en farið var að sofa kom
húsmóðirin, Ragnhildur Guðmundsdóttir, að máli við mig og við gengum
út í kvöldkyrrðina. Hún sagðist ætla að sýna mér blómin sín. Við gengum
upp túnið, sem engan veginn er bratt, en allt á fótinn, og mér sýndist
Ragnhildi veitast þetta dálítið erfitt. Hún var feit og þungfær og mér datt
í hug að hún þjáðist af asma. Undir dálitlum kletti efst í túninu hafði
hún gróðursett nokkur blóm. Hún hafði auðsjáanlega yndi af þessum
gróðri og hafði ekki talið eftir sér erfið spor til þess að hlynna að honum.
Þegar við höfðum skoðað blómin og virt fyrir okkur útsýnið gengum
við heim og var þá kominn háttatími. Mér var vísað til rúms í lítilli stofu
öðrumegin við bæjardyr. Þar svaf ég værum svefni, en vaknaði snemma
eins og ég á vanda til þar sem ég er gestur. Ég lá og virti fyrir mér stofuna.
Hún var hreinleg og látlaus, borð var þar og nokkrir stólar, myndir voru
á veggjum og á stofunni voru tvennar dyr. Aðrar vissu fram á ganginn,
en hinar voru á veggnum á móti glugganum. Allt í einu opnast þessar
dyr og þar birtist Stefán á Hlíð og tveir menn aðrir. Þeir fóru hljóðlega
og vöruðust að líta í áttina til mín og hurfu fram á ganginn.
Þannig stóð á að verið var að gera vegabætur á Lónsheiði og þar
var Stefán oft verkstjóri. Sjálfsagt hefur hann þá haft bækistöð sína í
Svínhólum, sem er næsti bær við heiðina. Þannig hélt ég að minnsta
kosti að þetta hefði verið. Eflaust hefur einhver þessara manna gengið
úr rúmi fyrir mér þessa nótt.