Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1985, Blaðsíða 82
80
MÚLAÞING
hefði vafalaust gleymst smátt og smátt og aldrei verið fært í letur ef
annað hefði ekki komið til.
Litlum sögum fer af Ormarsstaðaheimilinu, þar sem þau búa Bessi
auðgi og Málmfríður með syni sína tvo og eitthvað af vinnufólki næstu
árin. Ekki er einusinni kunnugt um hvort Jófríður frá Borg dvelst þar
að staðaldri næstu árin, en líklegt að svo h'afi verið því að samvistir
hennar og Bessa áttu eftir að lengjast og taka stefnubreytingu.
Árið 1790 eða 1791 deyr Málmfríður Árnadóttir húsfreyja á Ormars-
stöðum og séra Einar segir í Ættunum að búið hlaupi á nær 400 ríkisdali.
Þá er Bessi 54 ára að aldri eða þar um bil og synir þeirra, Jón og Árni,
um tvítugt (Jón um 21 árs og Árni um 18 ára).
Ekki var Bessi lengi konulaus, enda líkast til að hann hafi verið bæði
búmaður og nautnamaður. Sjálfsagt hefði hann getað haft um ýmsa
möguleika að velja, en leitar ekki langt til fanga. Hann gengur að eiga
sakborning sinn frá hvítasunnuhátíðinni í Ási sællar minningar - og
vinnukonu, Jófríði Magnúsdóttur.
Enginn veit nú lengur með hverjum hætti þessi ráðahagur tókst.
Aldursmunur um 28 ár. Ekki er heldur kunnugt um hvenær þau áttust,
en sonur fæðist þeim um 1793 og annar ári eða svo síðar.
Bessi er um 54 ára 1790 og Jófríður um 26 ára, og margs má spyrja.
Gekk hann að henni eins og mat sínum, allslausri vinnukind, hrossa-
kjöts- og hræætu sem hann hafði stungið í gapastokk? Bar hann til
hennar ást sem þróaðist upp úr samviskubiti, er hún þjónaði heimili
hans dul og myndvirk og tók það að sér innanstokks þegar kona hans
lést, svo að hann sá í henni manndóm sem laðaði til eiginorðs? - Eða
átti hún einhvers konar frumkvæði með stefnu á Ormarsstaðaauðinn
og veiddi karlinn í snöru sína til þess að sjá sér farborða með húsfreyju-
stöðu og hlutdeild í væntaniegum arfi á móti stjúpsonunum? Gekk
hún í brúðarsæng með svipuðu hugarfari og hún skar forðum bitann
af hræinu - eða fús og jafnvel glöð í huga? Skipti gapastokkurinn ef
til vill ekki máli er frá leið og nær 30 ára aldursmunur ekki heldur?
Átti hún aldrei draum um litklæddan pilt úr álfasögum, eða höfðu
örðug ævikjör, munaðarleysi og sultur eldmóðuáranna flæmt hann úr
huga hennar?
Við þessu eru engin svör, en víst er um það að henni tókst með
hyggindum og skynsemd að skapa sér þokkalegt og jafnvel hamingju-
ríkt lífsstand.
Bessi karlinn entist ekki lengi í hjónabandinu, lést að því er séra
Einar fullyrðir í Ættunum árið 1795, og nú hefur sá sem þetta skrifar