Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1994, Blaðsíða 15
MÚLAÞING
13
bæjardyrunum. En á vetrum þurfti að moka sig upp frá dyrunum til að
komast út og gátu það verið nokkuð margar tröppur. Stórhríðar vetrarins
brustu oft á fyrirvaralaust.
Um fráfærur og landgæði í Veturhúsum segir Björn:
„Landgæði voru mikil á Veturhúsum eins og annars staðar í Heiðinni
og gat fé orðið mjög vænt. Af þeim ástæðum m.a. voru fráfærur taldar
sjálfsagðar, þó að víða væru þær niðurlagðar í sveitum. Við tókum því
upp þennan sið og höfðum alltaf nokkrar ær í kvíum. Oftast munu þær
hafa verið 25-30, enda var fjárstofninn ekki stór. En þær mjólkuðu það
vel, að fyrst eftir fráfærurnar fékkst rúmlega mörk úr ánni í mál.”
Hér höfum við heyrt svolítið um landgæðin. Þá eru það hlunnindin.
Um 20 mínútna gang frá Veturhúsum eru tvö vötn, Anavatn og Grip-
deild. Talsverð silungsveiði var í báðurn þessum vötnum, og lagði Björn
þar jafnan silunganet, þegar þau voru auð. Við Ánavatn hafði hann bát.
Aldrei veiddi Björn þar þó stærri silung en 7 punda. Að þessari silungs-
veiði var mikil búbót. Færði Björn eitt sumar bók yfir veiðina og þá
veiddust 484 silungar, og var meðalþungi þeirra hálft annað pund. Alltaf
veiddist nóg í matinn og eins í salt til vetrarins. Nægur matur var því yfir
sumarið af silungi og mjólkinni úr ánum.
Hér er skýrt frá þessu til að varpa ljósi á þau lífskjör, sem foreldrar
Stefáns bjuggu við í Heiðinni. Eflaust hafa þau haft fráfærur eins og
Björn, enda þekktist þá varla annað.
Þetta var fyrsta heiðarbýlið sem þau bjuggu á, en upp frá því losnuðu
þau ekki undan seiðmagni Heiðarinnar. Svipuð var reynsla fleiri Heiðar-
búa. Það var frelsið sem þeir sóttust eftir þar, og náttúran með sínu
blómskrúði og fuglalífi. Alltaf átti Heiðin mikil ítök í Stefáni og fór
hann þangað margar ferðir.
Þau Eiríkur og Kristín áttu eftir að búa á mörgum heiðarbýlum, þó að
á sumum þeirra væru þau ekki nema 1-2 ár. Fyrir kom að þau réðu sig í
vinnumennsku á einhverju stórbýli, en undu þar aldrei lengi, heldur leit-
uðu aftur upp í Heiðina eftir frelsi og sjálfræði, þegar eitthvert býlið
losnaði.
Má því segja að Stefán sé upp alinn jöfnum höndum á stórbýlum í
byggðinni, eins og Möðrudal og Brú, og á heiðarbýlunum. Eflaust hefur
Heiðin haft áhrif á hann sem listamann, því að fegurð er þar mikil, sum-
ar og vetur. Eftir að hann var búsettur í Reykjavík, sóttist hann jafnan
eftir að koma í Heiðina á sumrum.
Síðustu tvö árin sem þau Eiríkur og Katrín voru á Veturhúsum,
bjuggu þau þar í tvíbýli með Páli Vigfússyni. Voru þá 12 manns á báð-