Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1994, Blaðsíða 140
138
MÚLAÞING
orði: “Ekkert skil ég í honum séra Þórami, ég held honum hefði verið
nær að kaupa sér jarðarpart en þetta bíó, sem kvað vera á leiðinni í Val-
þjófsstað.”
Ekki verður þess freistað að lýsa húsakynnum á Valþjófsstað í tíð föð-
ur míns. Þau voru samsafn íveruherbergja og geymslna sem fyrri prestar
höfðu ýmist byggt við önnur eldri hús eða hresst uppá, og svo samslung-
in að lýsing án afstöðumyndar myndi lítið stoða. Aðalíveruhús fjöl-
skyldunnar og nokkurs hluta vinnufólksins var lengst af baðstofuhús, er
faðir minn lét byggja skömmu eftir að hann tók við brauðinu. Var það
tvílyft og hvorri hæð skipt í þrjár vistarverur. Hjónaherbergið kallað
,,húsið“ fyrir stafni, þar undir ,,stássstofan“, notuð þegar ,,fínni“ gest-
ir komu og fyrir heimafólk á hátíðum og tyllidögum. Framan við hana
var „fremri stofan“, þar var geymt bókasafn föður míns sem var orðið
allmikið að vöxtum og þar sat hann við lestur og skriftir. í stofunni var
góður ofn og var hún því oft notuð til náms og kennslu.
Minnst hefur verið á það hér að framan að gestkvæmt hafi verið á Val-
þjófsstað í tíð föður míns og skal hér einnar gestkomu getið, þar sem
minnstu munaði að hún leiddi til nýrrar nafngiftar fyrir fjölskyldu
prestsins.
Það var eitt sinn að Einar H. Kvaran rithöfundur kom að heimsækja
frænda sinn, en þeir voru systkinasynir eins og áður hefur verið nefnt,
og skráðir fóstbræður í kirkjubókum Undirfellssóknar. Einar flutti erindi
í kirkjunni að aflokinni messu og fjallaði það um spíritismann, sem hann
kallaði mikilvægasta málið í heimi. Eftir messu þágu allir góðgerðir á
prestsheimilinu, svo sem venja var á messudögum. Þá var gengið til
kirkju enn á ný og þar las Einar upp sögu sína Alltaf að tapa, af slíkri
snilld að ógleymanlegt var öllum sem á hlýddu. Einar gisti einhverjar
nætur hjá frænda sínum og er hann var farinn sagði faðir minn okkur,
konu sinni og börnum, að “frændi” hefði slegið upp á því við sig að taka
upp Kvarans-nafnið fyrir sig og börn sín, en faðir minn sagðist hafa
hafnað því bróðurlega boði. Aldrei heyrðist það á honum hvort meira
hefði valdið um höfnunina, andúð hans á ættarnöfnum yfirleitt eða
gamlar minningar “tökudrengs” frá Undirfelli.
Ekki varð annars vart, en að sambúð foreldra minna væri ágæt miðað
við þeirra tíma hætti. Greinilega mátti þó merkja af samskiptum þeirra
að þau voru ólíkrar ættar og höfðu alist upp við lítt sambærileg skilyrði.
Hann á flækingi, föður- og móðurlaus allt frá frumbernsku, en hún njót-
andi umhyggju og ástríkis foreldra fram á fullorðinsár og jafnframt alin