Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1994, Side 142
140
MÚLAÞING
ómetanlegt tækifæri til að upplifa þá glaðværð og gleði, sem var svo ein-
kennandi fyrir Valþjófsstaðaheimilið. Heimili foreldra minna í Skafta-
hlíð varð oft miðpunktur, þegar þau systkinin hittust síðustu 20 árin, sem
þau lifðu. Það gerðist oft, því þau voru öll ,,orðin sjálfs sín ráðandi“ eða
komin á eftirlaun. Þau voru líka samrýmd svo af bar, og hélst svo til
æviloka hvers þeirra. Hver sem hefur upplifað ,,strákana“, Lalla og
Nonna, og ,,stelpurnar,“ Siggu, Ullu og Dísu við spil, þar sem græsku-
laus stríðni, einstaka stormsveipur en þó fyrst og fremst glaðværð og
glettni sveif yfir vötnum, gleymir því aldrei.
Og aldrei varð svo fjölskylduboð að ekki væri sungið, og þá alltaf lag-
ið þeirra, sem við skulum syngja núna: Lagið er Geng ég fram á gnípu
og textinn eftir Benedikt Gröndal yngri:
Flýg ég yfir fjöllin
og flýti mér að
vippa mér austur
að Valþjófsstað.
Verum engir ættlerar, höldum í heiðri minningunni um sæmdarhjónin
Ragnheiði og Þórarin og þeirra börn, og skemmtum okkur með söng og
leik í þeirra anda hér á þessum stað, sem var ramminn um lífsstarf
þeirra, sorgir og gleði.