Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.2001, Side 31
Einar J. Long
Ljóðabréf til Páls Ólafssonar á Arnaldsstöðum
Kvœðið er líklega ort 1914. Umræddur vetur var sá fyrsti eftir að Margrét Stefánsdóttir,
kona Einars, fór frá honum. Var hann þá oft allþunglyndur að eigin sögn. Lét þá Páll Olafsson
á Arnaldsstöðum hann hafa unganfola, Geysi nefndan, til fóðrunar og tamningar. Kemur þetta
fram í Ijóðabréfinu.
Kæri Páll minn sértu sæll og sífellt hraustur.
Þér að skrifa þig að finna
það er vilji þanka rninna.
Það er sífellt svartnætti á sinni mínu,
ljós þar ekki lifað getur
langur er hann þessi vetur.
Leiðindin þau dingla við mig daga og nætur.
Að lifa svona er langvinn glíma,
en líklega dett ég einhvern tíma.
Þegar dregur dauðinn mig í duftið niður
auðnuleysis leysir böndin
ljóssins engils friðarhöndin.
Líkamans er lúin oft og lasin grindin
útslitin og einskis virði
íbogin sem tunnugirði.
Sálin hafði yndi af því að unna blómum
hlusta á lind og lækjaniðinn
leika sér við fuglakliðinn.
Fannst mér lífið unan ein og ástarsæla.
Af björtum hug á blómin horfði
blíðar meyjar kyssa þorði.
Þá var flaska, þá var bjór og þá var hestur,
þá var allt sem yndi veitti,
oft ég tungublaðið bleytti.
Nú er horfin öll sú dýrð og æskufjörið.
Þetta kemur aldrei aftur,
eftir lifir tómur kjaftur.
Hann er í standi, heillavinur, hvað sem brestur.
Að orðum sínum gefur gætur,
gamansemi fjúka lætur.
Á jóladaginn tók ég Geysi, trúðu vinur.
Á útigangi ekki er þolinn,
óharðnaði rauði folinn.
Síðan hef ég töðu og vatn í tryppið borið,
eldi á honum allir segja,
um það mun ég sjálfur þegja.
Þegar kemur glæra gljá og gott að ríða,
skal hann fá að flísa svellin,
ég finn þá hvort hann reynist hnellinn.
Veiti þér drottinn auð og yndi og allslags gæði,
tuttugu börn í bæinn góði,
berðu þau ekki svo þau hljóði.
Mér að stytta stund ég þessi stef þér sendi
í fljótheitum var að þeim unnið
enda er lítið í þau spunnið.
Kysstu frá mér konu þína kært og lengi,
en heyrðu vinur láttu ljóðin
liggja þar sem best er glóðin.
29