Gerðir kirkjuþings - 2008, Page 11

Gerðir kirkjuþings - 2008, Page 11
 11 Ávarp dóms- og kirkjumálaráðherra, Björns Bjarnasonar Kirkjuþing, orðið leiðir hugann aftur í aldir, þegar kristnir menn hittust til að ráða ráðum sínum og koma sér saman um, hvernig boða ætti trúna á Jesú Krist. Ég hef átt þess kost að heimsækja marga helgistaði. Einna áhrifamest hefur mér þó þótt að koma á Aresarhæð við Akropolis í Aþenu, þar sem Páll postuli hélt sitt kirkjuþing og sagði: „Aþeningar, þið komið mér svo fyrir sjónir að þið séuð í öllum greinum miklir trúmenn því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum ykkar og fann þá meðal annars altari sem á er ritað: Ókunnum guði. Þetta sem þið nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég ykkur. Guð, sem skóp heiminn og allt sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum sem með höndum eru gerð.“ Ræða postulans er ekki aðeins merk vegna þess boðskapar, sem hún hefur að geyma, heldur einnig vegna hugdirfsku ræðumannsins – að fara á slóðir Sókratesar til að snúa mönnum til nýrrar trúar og túlka kenningar úr heimi gyðinga á þann veg, að þær festi rætur í nýjum menningarheimi. Dr. Sigurbjörn Einarsson, blessuð sé minning hans, ritaði greinaflokk í Morgunblaðið fyrir ári og velti fyrir sér vilja veraldarinnar. Þar minnti hann okkur á, að Sókrates og Kristur hefðu báðir verið dæmdir til dauða og stæðu þannig hlið við hlið og dr. Sigurbjörn sagði upprisu Jesú einstæða staðfestingu á einstæðri vissu og þar með þá endurskoðun á jarðneskri dómsniðurstöðu, sem ætti enga hliðstæðu. Kristin trú væri hlutdeild í þeirri vissu og byggðist á henni. Þannig hefði hún fæðst og lifði til þessa dags. Við tilkomu hennar hefðu orðið tímamót í andlegri sögu heimsins. Með útbreiðslu kristninnar hefðu hebresk hugsun og grísk mæst og runnið í einn farveg, tveir öflugir straumar úr ólíkum lindum. Við getum enn þann dag í dag gengið um staðinn, þar sem Páll postuli hvatti til samruna hinna öflugu, ólíku menningarstrauma undir merkjum kristninnar. Þar má standa og íhuga gífurleg áhrif þessarar umbreytingar á alla framvindu heimssögunnar. Eins göngum við um Þingvelli og eignumst hlutdeild í sögunni og samþykkt alþingis um að kristni skyldi lögtekin á Íslandi. Til Þingvalla og Þorgeirs Ljósvetningagoða rekjum við upphaf þess samruna heiðni og kristni, sem hefur mótað sögu og menningu Íslendinga í meira en 1000 ár. Í umræðum um frumvarp að nýjum grunnskólalögum á alþingi fyrir tæpu ári, vöknuðu spurningar um kristnifræðslu. Í þingsalnum var ég spurður um afstöðu mína og vísaði ég til eigin orða við útgáfu námskrár í minni tíð sem menntamálaráðherra, að við fram- kvæmd skólastefnunnar bæri að halda í heiðri gildi, sem hefðu reynst okkur Íslendingum best. Skólarnir hefðu vaxið úr jarðvegi kristninnar og þær rætur mætti aldrei slíta. Og ég

x

Gerðir kirkjuþings

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Gerðir kirkjuþings
https://timarit.is/publication/1136

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.