Gerðir kirkjuþings - 2008, Síða 30
30
5. mál. Starfsreglur um þjóðmálanefnd
Starfsreglur þessar voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda og gefnar út á vef kirkjunnar.
Kosið var til nefndarinnar á Kirkjuþingi 2007. Aðalmenn voru kosnir Sigríður Anna
Þórðardóttir, fv. alþingismaður og ráðherra, formaður; sr. Anna Sigríður Pálsdóttir,
sóknarprestur; sr. Baldur Kristjánsson, sóknarprestur; Hallgrímur Jónasson, fv. forstjóri
Iðntæknistofnunar og formaður sóknarnefndar Víðistaðasóknar, Hafnarfirði; og Steinunn
Jóhannesdóttir, rithöfundur.
Varamenn voru kosnir Einar Skúlason, forstöðumaður Alþjóðahúss; Eva María
Jónsdóttir, dagskrárgerðarmaður hjá RÚV; sr. Sigrún Óskarsdóttir, sóknarprestur; sr. Geir
Waage; og Ævar Kjartansson, dagskrárgerðarmaður.
Nefndin hefur verið að störfum og var í undirbúningi að halda málþing um fordóma í júní
sl. um kirkjuna, fordóma og innflytjendur/útlendingaótta, en því var frestað til hausts.
Formaður nefndarinnar baðst lausnar vegna brottflutnings af landinu og Kirkjuþing 2008
þarf að kjósa nýjan formann. Samkvæmt starfsreglunum leggur Biskupsstofa nefndinni til
ritara.
6. mál. Starfsreglur um breyting á ýmsum starfsreglum
Starfsreglur þessar voru birtar í B-deild stjórnartíðinda og gefnar út í lagasafni á vef
kirkjunnar. Einkum var um að ræða tæknilegar breytingar eða orðalagsbreytingar og
aðlögun að breyttu laga- og starfsregluumhverfi á síðustu árum.
7. mál. Þingsályktun um skipun nefndar til að endurskoða löggjöf um Þjóðkirkjuna
Kirkjuráð skipaði þriggja manna nefnd til að endurskoða kirkjulöggjöfina. Formaður
hennar er Pétur Kr. Hafstein, forseti Kirkjuþings. Aðrir nefndarmenn eru sr. Kristján
Björnsson kirkjuþingsmaður og Bryndís Helgadóttir, lögfræðingur í dóms- og kirkju-
málaráðuneytinu, skipuð samkvæmt tilnefningu ráðherra. Með nefndinni starfa Hjalti
Zóphóníasson skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og Ragnhildur
Benediktsdóttir skrifstofustjóri Biskupsstofu. Nefndin hefur skilað áfangaskýrslu og
drögum að frumvarpi til nýrra þjóðkirkjulaga til kynningar á hugmyndum nefndarinnar –
sjá 4. mál Kirkjuþings 2008.
8. mál. Þingsályktun um Þjóðkirkjuna og staðfesta samvist
Frumvarp til laga um breyting á lögum um staðfesta samvist nr. 87/1996 varð að lögum á
vorþingi 2008 og öðluðust breytingalögin gildi 27. júní 2008. Prestum og
forstöðumönnum skráðra trúfélaga er hafa vígsluheimild skv. 17. gr. hjúskaparlaga, nr.
31/1993, er heimilt að staðfesta samvist.
Að tilhlutan biskups Íslands hefur verið gengið frá formi vegna staðfestingar samvistar og
er vísað til tillögu til þingsályktunar um drög að samþykktum um innri málefni kirkjunnar
í 6. máli Kirkjuþings 2008.
Kirkjuþing 2007 lagði í ályktun sinni áherslu á að frelsi presta í þessum efnum verði virt.