Gerðir kirkjuþings - 2008, Blaðsíða 44
44
Nefndarálit
Á fund allsherjarnefndar komu herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, Vilborg Odds-
dóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, Guðlaug Magnúsdóttir forstöðumaður
Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, verkefnisstjóri á Bisk-
upsstofu og sr. Ólafur Jóhannsson formaður Prestafélags Íslands.
Allsherjarnefnd þakkar skýrslu Kirkjuráðs. Skýrslan ásamt Árbók kirkjunnar 2007 endur-
speglar blómlegt starf Þjóðkirkjunnar.
Allsherjarnefnd leggur áherslu á að kynning mála á Kirkjuþingi sé efld heima í héraði.
Nefndin tekur undir þær hugmyndir Kirkjuráðs að haldnir séu aukahéraðsfundir eða
leiðarþing að hausti til kynningar á málum Kirkjuþings. Beinir nefndin því ennfremur til
Kirkjuráðs að það sendi próföstum orðsendingu þessa efnis fyrir héraðsfundi vorið 2009.
Nefndin fagnar því hve vel hefur verið haldið á fjármálum kirkjunnar og varðveislu sjóða
á tímum fjármálauppnáms. Jafnframt minnir nefndin á nauðsyn þess að gæta aðhalds án
þess að það komi niður á innra starfi Þjóðkirkjunnar. Þá styður allsherjarnefnd þá
ákvörðun Kirkjuráðs að fresta nýframkvæmdum í Skálholti í ljósi breyttra aðstæðna í
þjóðfélaginu.
Allsherjarnefnd fagnar því að unnið hafi verið að endurskoðun þjóðkirkjulaga með
áherslu á aukið sjálfstæði Þjóðkirkjunnar.
Allsherjarnefnd fagnar samstarfi Tónskólans við Listaháskólann og væntir mikils af því.
Allsherjarnefnd telur tímabært að hefja endurskoðun á Stefnu- og starfsáherslum
Þjóðkirkjunnar 2004-2010 í ljósri breyttra aðstæðna í íslensku samfélagi sem vísast munu
hafa mikil áhrif á kirkjulegt starf á næstunni.
Allsherjarnefnd hefur fengið skýrslu þjóðmálanefndar til umfjöllunar og tekur undir
lokaorð skýrslunnar þess efnis að mörg mikilvæg verkefni bíði nefndarinnar og væntir
allsherjarnefnd mikils af störfum hennar í framtíðinni.
Kirkjuþing 2007 ályktaði að metin yrði staða og starfshættir fjölskylduþjónustu
kirkjunnar og sérstaklega yrði skoðað hvernig efla mætti þjónustu við landsbyggðina.
Nefnd sem skipuð var til að fjalla um málið komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að
útvíkka þyrfti þjónustu fjölskylduþjónustu kirkjunnar til muna og benti á ýmsar
hugmyndir þar að lútandi.
Allsherjarnefnd telur að efla megi þjónustuna við landsbyggðina með víðtækari tengingu
og samstarfi við presta, djákna og annað sálgæslumenntað fólk.
Allsherjarnefnd tekur undir það með nefnd um árangursmat í kirkjustarfi að mikilvægt sé
fyrir söfnuði sem og Þjóðkirkjuna í heild að hafa skýr markmið í starfi og þjónustu og að
meta reglulega gæði og árangur starfs. Nefna má könnun fyrir fermingarbörn og foreldra,
sem unnin var og getur verið gagnleg til frekari þróunar í fermingarstörfum.