Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2004, Page 110
108
miklu, miklu þyngri en hér áður fyrr“. Inni í
almennum deildum eru börn sem hefðu þurft
að komast að í sérdeildum eða í annars konar
sérúrræði en eiga þess ekki kost. Það eru
aðeins allra slökustu börnin sem komast að í
sérdeildum, en mörg börn sem svipað er ástatt
um „eru á þröskuldinum“ og komast ekki inn.
Það er talað um að vandamálin séu svo mörg
að það sé eins og að „vera með sérdeild inni í
hverjum bekk“, eins og einn kennarinn orðaði
það. Kennararnir segja að erfiðustu málin eigi
heima á geðdeild en Þyri segir ekki auðvelt að
koma þeim þar inn:
Það er ekkert pláss fyrir þau þar. Það er margra
mánaða bið á greiningarstöðina BUGL [Barna- og
unglingageðdeild Landspítalans]. Þessi börn eiga
alveg óskaplega bágt.
Hulda tekur undir þetta og segir að það sé
„löngu komið upp fyrir allt sem eðlilegt geti
talist að senda mjög veika einstaklinga“ inn í
skólann. Gunnar segir að þetta sé „fyrir löngu
sprungið“ því fjöldi þeirra nemenda sem þurfa
sérhjálp sé svo mikill.
Vantar meiri stuðning
Sumir nemendur eiga námslega mjög erfitt „en
allt of stór hluti þeirra er svona illa staddur af
félagslegum ástæðum“ segir Hafdís. Hún segir
að bekkjarkennararnir ráði ekki við þennan
vanda einir og sér. Það þurfi að taka þetta
fastari tökum og fá utanaðkomandi stuðning.
Eftir því sem kennararnir segja þá kemur
sálfræðingur í skólann „svona tvo daga í viku
að meðaltali“. Þeir segja að hann sjái fyrst og
fremst um greiningarvinnu. Það eitt og sér er
ágætt en ekki á nokkurn hátt fullnægjandi.
„Sálfræðingurinn hefur ekki mér vitanlega
farið inn í bekki til þess að veita þar stuðning
eða ráðgjöf og ekki hefur verið nein eftirfylgd
eftir greiningu, hvort sem það er greining á
námsvanda eða hegðunarvanda," segir Særún.
Kennararnir segja að hjúkrunarfræðingar
skólans hafi aðstoðað eftir því sem þess hafi
verið óskað en starf þeirra bar lítið á góma.
Félagsmálastofnun kemur að málum margra
nemenda, mun meira en þekkist við aðra
grunnskóla. Borið saman við annan erfiðan
grunnskóla er hlutfallið 8 á móti 1 (40 börn við
þennan skóla frá I. sept. - 1. febr. en voru 5 allt
skólaárið í samanburðarskólanum sem þykir
erfíður). „Þetta er langt, ég leyfi mér að fullyrða
það, langt út fyrir nokkur normal mörk,“ segir
Særún. Hins vegar gengur félagsþjónustunni
ekki nógu vel að taka á málum þessara barna
að hennar mati. Þar er „mikið máttleysi,“
segir hún. Einn úr hópi fagaðila telur að
samstarf félagsþjónustunnar og skólans hafi
undanfarin ár ekki verið sem skyldi og „í dag
má segja sem svo að félagsþjónustan og heil-
brigðisþjónustan hafi kannski ekki í nægilega
ríkum mæli yfir úrræðum að ráða til að geta
sinnt þessum börnum".
Agavandi
Kennararnir eru ekki einróma um agavandann.
Sumum finnst hann mikill en aðrir kvarta ekki
að ráði. Bekkirnir eru ólíkir og vandamálin
mismikil innan bekkja. Kennararnir segja að
sumir bekkir séu þannig að kennarinn geti ekki
slakað á nokkra stund. „Þú ert í stöðugu stríði
við að halda ákveðnunt nemendum niðri og ert
að eyða orkunni í þá í stað þess að eyða henni
í þá sem þú mundir vilja kenna,“ segir Sævar.
Það sama kemur fram hjá Jónu: „Manni finnst
maður stöðugt vera að fást við óvita. Krakkar
sem eru jafnvel komnir upp í 10. bekk og
eiga að taka samræmd próf í vor og maður
eyðir kannski lunganum úr tímanum í að ná
vinnufriði." Hún segir að þetta sé misjafnt „en
það er stór hópur sem maður þarf að vera að
glíma við“. Ymsir kennarar segja að of mikill
tími hverrar kennslustundar fari í uppeldi á
kostnað kennslunnar, að það fari allt of mikil
orka í uppeldismálin en fræðsluþátturinn verði
útundan.
Þór, sem er reyndur kennari, hefur alveg
ákveðna skoðun á því af hverju nemendur
eru svona kærulausir og erfiðir. Hann segir að
þegar hætt var að krefjast þess að nemendur
næðu lágmarksárangri til að flytjast á milli
bekkja og skóla þá hafi þetta breyst til verri
vegar. Hann segir að nemendur „spili frítt“, að
þeir viti að það sé hvorki hægt að gera kröfur
Tímarit um menntarannsóknir, 1. árgangur 2004